Eins marks tap gegn Belgum í Laugardalnum
A landslið karla beið í kvöld lægri hlut 1-2 gegn Belgíu í Þjóðadeildinni í seinasta heimaleik Íslands á þessu hausti. Öll mörk leiksins komu í fyrri hálfleik.
Gestirnir náðu forystu á 9. mínútu leiksins þegar Romelu Lukaku skoraði með skoti eftir klafs í teignum, en Birkir Már Sævarsson jafnaði metin fyrir íslenska liðið á 17. mínútu. Eftir frábært hlaup upp hægri kantinn og hnitmiðaða stungusendingu frá Rúnari Má Sigurjónssyni renndi Birkir boltanum fram hjá Mignolet í belgíska markinu og skoraði þar með sitt annað A-landsliðsmark í 93 leikjum.
Lukaku náði svo forystunni að nýju fyrir Belgíu með öðru marki sínu í leiknum þegar hann skoraði úr vítaspyrnu á 38. mínútu eftir að Hólmar Örn Eyjólfsson hafði verið dæmdur brotlegur. Þetta reyndist sigurmark leiksins því hvorugu liðinu tókst að bæta við marki.
Í hinum leik riðilsins mættust Englendingar og Danir á Wembley-leikvanginum í Lundúnum og höfðu gestirnir betur með eina marki leiksins frá Christian Eriksen úr. vítaspyrnu á 35. mínútu. Belgar eru á toppi 2. riðils A-deildar með 9 stig eftir fjóra leiki, Danir og Englendingar eru með 7 stig, en Íslendingar eru í neðsta sæti án stiga og ljóst að Ísland leikur í B-deild í næstu Þjóðadeildarkeppni.
Riðillinn og leikirnir í Þjóðadeildinni
Mynd: Hafliði Breiðfjörð, Fótbolti.net