Miðakaup á umspilsleik við Rúmeníu endurgreidd
Eins og staðan er nú mun Knattspyrnusamband Evrópu (UEFA) ekki leyfa áhorfendur á landsleikjum í október og því hefur KSÍ ákveðið að endurgreiða alla miða sem keyptir voru á mars-leikinn. Miðakaupendur á umspilsleik A landsliðs karla við Rúmeníu, sem fara átti fram í mars, munu fá sendan tölvupóst með upplýsingum um endurgreiðslu á keyptum miðum. Leiknum var frestað af þekktum ástæðum og mun nú fara fram 8. október næstkomandi.
Hvað ef takmarkaður fjöldi áhorfenda verður leyfður?
Ef UEFA leyfir áhorfendur þá yrði hámarksfjöldi og hólfun áhorfenda í samræmi við gildandi lög hér á landi og því ljóst að mun færri myndu komast að en myndu vilja, enda eru miðarnir sem seldust á leikinn á sínum tíma mun fleiri en leyfilegur hámarksfjöldi áhorfenda, miðað við reglur heilbrigðisyfirvalda á Íslandi um áhorfendafjölda sem tóku gildi mánudaginn 28. september (nánar).
Ef takmarkaður fjöldi áhorfenda verður leyfður þá mun KSÍ senda upplýsingar með tölvupósti til miðakaupenda og opna miðasölu eins fljótt og mögulegt er. Miðasölunni yrði skipt upp í þrjú þrep. Í fyrsta þrepi miðasölu yrði ársmiðakaupendum* sem keyptu miða á Rúmeníu-leikinn boðið að kaupa miða, í öðru þrepi myndu bætast við haustmiðakaupendur** sem keyptu miða á Rúmeníu-leikinn og í þriðja þrepi yrði opnað fyrir almenna sölu. Seljist miðar upp í tilteknu þrepi verður ekki opnað fyrir þrepin þar á eftir.
*Kaupendur ársmiða keyptu miða á alla heimaleiki Íslands í undankeppninni fyrir EM 2020.
**Kaupendur haustmiða keyptu miða á alla heimaleiki Íslands haustið 2019 í sérstökum haustpakka.
Mynd: Hafliði Breiðfjörð, Fótbolti.net