A karla - 0-1 tap gegn Englandi
Ísland tapaði 0-1 fyrir Englandi í fyrsta leik liðsins í Þjóðadeild UEFA.
Fyrri hálfleikur var nokkuð jafn, Englendingar voru meira með boltann en hvorugt liðið skapaði sér opin færi að ráði. Á 7. mínútu leit besta færi fyrri hálfleiks dagsins ljós þegar Harry Kane kom boltanum í netið, en markið var dæmt af vegna rangstöðu.
Ísland náði að halda boltanum ágætlega eftir það, náðu upp ágætu spili en tókst ekki að opna vörn Englands. Það var svo á 35. mínútu sem besta færi Íslands kom þegar Arnór Ingvi Traustason setti boltann rétt framhjá úr aukaspyrnu.
Lítið markvert gerðist næstu tíu mínúturnar og staðan því markalaus í hálfleik.
Síðari hálfleikur fór af stað svipað og sá fyrri. England var meira með boltann, en íslenska vörnin var þétt og gaf fá færi á sér. Á 53. mínútu átti Declan Rice skot yfir mark Íslands eftir góða sókn Englendinga.
Fyrsta skipting dagsins var gerð á 66. mínútu. Arnór Sigurðsson kom þá inn á fyrir Jón Dag Þorsteinsson. Fimm mínútum síðar var Kyle Walker rekinn af velli eftir að hafa brotið á Arnóri Ingva.
Á 76. mínútu kom Emil Hallfreðsson inn á fyrir Arnór Ingva. Englendingar héldu áfram að sækja, héldu boltanum ágætlega en tókst ekki að opna vörn Íslands.
Fyrsta mark leiksins var skorað af vítapunktinum, en það var Raheem Sterling sem setti boltann í netið eftir að víti var dæmt á Sverri Inga Ingason, sem fékk rautt spjald fyrir vikið.
Strax í næstu sókn fékk Ísland víti þegar brotið var á Hólmbert Aroni, en Birkir Bjarnason setti boltann yfir.
Fleiri mörk voru ekki skoruð og sigur Englands því staðreynd. Ísland mætir næst Belgíu á þriðjudag ytra og hefst sá leikur kl. 18:45.