Undirbúningur fyrir England hafinn
A landslið karla hefur hafið undirbúning sinn fyrir leikinn við England í A-deild Þjóðadeildar UEFA, sem fram fer næstkomandi laugardag á Laugardalsvelli. Æft var mánudag og þriðjudag við toppaðstæður og leikflötur vallarins skartar sínu fegursta.
Um er að ræða fyrsta leik liðanna í þessari keppni, en Ísland mætir einnig Belgíu í þessari leikjalotu á meðan England mætir Danmörku. Enska liðið mun ekki æfa á Laugardalsvellinum fyrir leikinn, en æfir hérlendis eftir leikinn og mun halda til Danmerkur á mánudag. Engir áhorfendur eru leyfðir á UEFA leikjum og því verður áhorfendastúkan í Laugardalnum tóm.
Ísland og England hafa þrisvar sinnum áður mæst í A landsliðum karla og hefur hvort lið um sig unnið einn leik og einu sinni hafa liðin skilið jöfn. Sigur íslenska liðsins á því enska á EM 2016 er knattspyrnuáhugafólki eflaust í fersku minni.
Leikur Íslands og Englands fer fram á Laugardalsvelli laugardaginn 5. september og hefst kl. 16:00 (beint á Stöð 2 sport)