Öllum júní-landsleikjum frestað
Knattspyrnusamband Evrópu (UEFA) hefur tilkynnt að öllum fyrirhuguðum landsleikjum sem fara áttu fram í júní á þessu ári hafi verið frestað um óákveðinn tíma. Frestunin nær m.a. til fyrirhugaðra umspilsleikja A landsliðs karla um möguleikann á sæti í lokakeppni EM og leikja A landsliðs kvenna í undankeppni EM. Þessi ákvörðun var tekin á fundi framkvæmdastjórnar UEFA í dag, miðvikudaginn 1. apríl, í kjölfar fundar með framkvæmdastjórum allra aðildarlanda UEFA og að fengnum tillögum frá sérstökum starfshópum UEFA.
Á meðal annarra ákvarðana á fundinum:
- Úrslitakeppni EM U17 karla, sem fara átti fram í maí 2020, hefur verið aflýst.
- Úrslitakeppni EM U19 kvenna, sem fara átti fram í júlí 2020, hefur verið aflýst.
- Úrslitakeppni EM U17 kvenna, sem fara átti fram í maí 2020, hefur verið frestað um óákveðinn tíma (gildir sem undankeppni fyrir HM U17 kvenna).
- Úrslitakeppni EM U19 karla, sem fara átti fram í júlí 2020, hefur verið frestað um óákveðinn tíma (gildir sem undankeppni fyrir HM U19 karla).