Dagsetningar umspilsleikja í júní
UEFA hefur gefið út að áætlað sé að allir leikir A landsliða karla sem fara áttu fram í leikjaglugganum 23.-31. mars fari fram í leikjaglugga í júnímánuði, sem hefur nú verið dagsettur 1.-9. júní. Þetta á við um vináttuleiki og leiki í umspili um sæti í lokakeppni EM 2020*.
Leikir í umspili um sæti í lokakeppninni eru áætlaðir 4. júní (undanúrslitaleikir) og 9. júní (úrslitaleikur). Þar með er ljóst að áætlað er að leikur Íslands og Rúmeníu fari fram á Laugardalsvelli fimmtudaginn 4. júní.
* Til að fyrirbyggja misskilning hefur UEFA gefið út að lokakeppni A landsliða karla, sem fara átti fram í sumar en hefur verið frestað til sumarsins 2021 verði (a.m.k. fyrst um sinn) áfram kölluð "EURO 2020", eða "EM 2020", þ.e. með upprunalegu ártali.