• mið. 18. des. 2019
  • Landslið
  • A karla
  • A kvenna

Gylfi Þór og Sara Björk knattspyrnufólk ársins 2019

Myndir - fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Leikmannaval KSÍ hefur valið Gylfa Þór Sigurðsson og Söru Björk Gunnarsdóttur knattspyrnufólk ársins 2019. Þetta er í 16. sinn sem knattspyrnufólk ársins er sérstaklega útnefnt af KSÍ og eru það fjölmargir aðilar, m.a. fyrrverandi landsliðsmenn, þjálfarar og forystumenn í knattspyrnuhreyfingunni, sem velja.

Knattspyrnumaður ársins

Mynd:  Hafliði Breiðfjörð, Fótbolti.net

1. sæti

Gylfi Þór Sigurðsson er Knattspyrnumaður ársins í áttunda skipti, en hann hefur hlotið nafnbótina frá árinu 2012. Gylfi Þór leikur með Everton í ensku úrvalsdeildinni og hefur verið þar lykilmaður undanfarin ár. Liðið endaði í 8. sæti á síðasta tímabili, þar sem Gylfi lék 38 leiki, skoraði í þeim 13 mörk og gaf sex stoðsendingar. Fyrir Everton hefur hann leikið 16 leiki á yfirstandandi leiktímabili og skorað í þeim eitt mark og hefur hann gefið eina stoðsendingu.

Gylfi hefur verið lykilmaður í íslenska landsliðinu á árinu og leikið tíu leiki með Íslandi á árinu og skoraði í þeim tvö mörk. Liðið tryggði sér sæti í umspili fyrir lokakeppni EM 2020 þar sem það mætir Rúmeníu í undanúrslitum þess í mars á Laugardalsvelli.

2. sæti

Mynd:  Hafliði Breiðfjörð, Fótbolti.net

Jóhann Berg Guðmundsson hefur átt gott ár, hvort sem það er með landsliðinu eða félagsliði sínu, Burnley. Liðið endaði í 15. sæti í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili, en Jóhann Berg lék 29 leiki í deildinni, skoraði þrjú mörk og gaf átta stoðsendingar. Hann lék einnig fimm leikið með liðinu í forkeppni Evrópudeildarinnar og var þetta í fyrsta sinn í 51 ár sem félagið lék í Evrópukeppni. Á yfirstandandi leiktímabili hefur Jóhann Berg leikið 4 leiki með liðinu í ensku úrvalsdeildinni og skorað eitt mark.

Hann hefur leikið fjóra leiki með landsliðinu á árinu og skoraði hann sigurmark liðsins í 1-0 sigri gegn Albaníu í júní.

Mynd:  Hafliði Breiðfjörð, Fótbolti.net

3. sæti

Ragnar Sigurðsson hefur átt frábært ár, hvort sem það er með félagsliði sínum FK Rostov, eða landsliðinu. Liðið endaði í 9. sæti í rússnesku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili og lék Ragnar þar í 27 af 30 leikjum liðsins. Á yfirstandandi leiktímabili hefur hann leikið 13 leiki með liðinu, en það situr í 3. sæti deildarinnar eftir 19 leiki.

Ragnar lék 10 leiki með Íslandi árið 2019 og skoraði í þeim tvö mörk, en þau komu bæði í 2-1 sigri liðsins gegn Tyrklandi á Laugardalsvelli í júní. Hann lék frábærlega með liðinu á árinu og var t.a.m. valinn í lið undankeppninnar hjá UEFA.

 

Knattspyrnukona ársins

1. sæti

Mynd:  Hafliði Breiðfjörð, Fótbolti.net

Sara Björk Gunnarsdóttir er Knattspyrnukona ársins í sjötta skipti og fimmta árið í röð, en hún er einn af mikilvægustu leikmönnum Wolfsburg og vann þar bæði deild og bikar á síðastliðnu tímabili, þriðja árið í röð. Á yfirstandandi tímabili hefur liðið ekki enn tapað leik, unnið 11 og gert eitt jafntefli og situr í efsta sæti, þremur stigum á undan Hoffenheim.  Sara hefur leikið 11 leiki á tímabilinu og skorað í þeim 5 mörk.

Sara Björk hefur leikið ellefu leiki á yfirstandandi leiktímabili og skorað í þeim fimm mörk. Hún er fyrirliði íslenska landsliðsins og á árinu lék hún níu leiki með liðinu og skoraði eitt mark, gegn Skotlandi á Algarve Cup.

Mynd:  Hafliði Breiðfjörð, Fótbolti.net

2. sæti

Glódís Perla Viggósdóttir hefur átt frábært ár, en hún varð í fyrsta sinn sænskur meistari með félagsliði sínu, FC Rosengard, á nýliðnu keppnistímabili. Hún lék alla 22 leiki liðsins í deildinni skoraði í þeim þrjú mörk.

Glódís Perla lék 11 leiki með Íslandi á árinu, en liðið hefur farið frábærlega af stað í undankeppni EM 2021 og unnið alla sína þrjá leiki þar og aðeins fengið á sig eitt mark.

Mynd:  Hafliði Breiðfjörð, Fótbolti.net

3. sæti

Elín Metta Jensen átti gott tímabil með Val, en liðið varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn síðan 2010. Hún skoraði á tímabilinu 16 mörk í 18 leikjum og var lykilmaður í velgengni þess.

Með landsliðinu lék Elín Metta 10 leiki og skoraði í þeim sex mörk.