Kaupendur ársmiða og haustmiða í forgangi
Eins og knattspyrnuáhugafólki er kunnugt um mun A landslið karla leika í umspili um sæti í lokakeppni EM 2020. Leikið er dagana 26. mars (undanúrslit) og 31. mars (úrslitaleikur) - takist íslenska liðinu að leggja Rúmeníu í undanúrslitaleiknum bíður úrslitaleikur við annað hvort Búlgaríu eða Ungverjaland.
Þessa dagana vinnur KSÍ að undirbúningi leikjanna og meðal verkefna er undirbúningur miðasölu á heimaleikinn 26. mars. Nánari upplýsingar um miðasöluna verður vonandi hægt að birta í desember, en KSÍ getur þó staðfest nú þegar að kaupendur ársmiða og haustmiða á leiki Íslands í undankeppni EM verða í forgangi þegar miðasala opnar.
Miðasölunni verður skipt í þrjú þrep. Í fyrsta þrepi miðasölu verður kaupendum ársmiða* boðið að kaupa miða, í öðru þrepi bætast kaupendur haustmiða** og í þriðja þrepi verður opnað fyrir almenna sölu.
*Kaupendur ársmiða keyptu kort sem gilti á alla heimaleiki Íslands í undankeppninni (5 leikir).
**Kaupendur haustmiða keyptu miða á alla heimaleiki Íslands í haustpakka (3 leikir).
Mynd með grein: Hafliði Breiðfjörð, Fótbolti.net
Fréttin var uppfærð 12. desember.