A karla - 3-0 sigur gegn Moldóvu
Mynd - fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland vann góðan 3-0 sigur gegn Moldóvu í undankeppni EM 2020. Kolbeinn Sigþórsson, Birkir Bjarnason og Jón Daði Böðvarsson skoruðu mörk Íslands.
Ísland byrjaði leikinn ágætlega, hélt boltanum vel sín á milli og settu ágæta pressu á vörn Moldóvu. Þrátt fyrir það tókst strákunum ekki að skapa sér mikið af færum. Það var ekki fyrr en á 20. mínútu sem fyrsta alvöru færi leiksins leit dagsins ljós. Hjörtur Hermannsson átti þá góða fyrirgjöf sem Jón Daði Böðvarsson skallaði yfir.
Þremur mínútum síðar átti Birkir Bjarnason skot rétt framhjá eftir hornspyrnu Ara Freys Skúlasonar. Aðeins mínútu síðar var Birkir aftur nálægt því að skora, nú eftir frábæra sendingu Arons Einars Gunnarssonar.
Það var svo á 31. mínútu sem fyrsta mark leiksins var skorað. Jón Daði Böðvarsson lagði þá boltann fyrir Kolbein í teignum, en hann setti boltann af öryggi í hornið vinstra megin. Staðan því orðin 1-0.
Ísland hélt áfram að stjórna leiknum og á 34. mínútu var það Gylfi Sigurðsson sem átti skot rétt yfir. Þremur mínútum síðar var skot hans varið eftir frábæran sprett Arons Einars.
Gylfi og Arnór Ingvi Traustason áttu síðan sitthvort skotið áður en flautað var til hálfleiks. Staðan 1-0 í hléinu.
Ísland hóf síðari hálfleikinn af krafti og var með stjórn á honum frá byrjun hans. Strákarnir voru oft á tíðum nálægt því að komast í góð færi fyrstu tíu mínútur hans. Á 55. mínútu var það svo Birkir sem tvöfaldaði forystu Íslands. Ari Freyr tók hornspyrnu, góður skalli Ragnars Sigurðssonar var varinn en Birkir var mættur til að taka frákastið og setti það auðveldlega í netið. Staðan því orðin 2-0.
Fjórum mínútum síðar var Birkir svo nálægt því að skora annað mark sitt, en skalli hans fór yfir markið.
Á 63. mínútu gerði Ísland fyrstu skiptingu sína í leiknum. Emil Hallfreðsson kom þá inn á, en útaf fór Kolbeinn Sigþórsson.
Það var svo á 77. mínútu sem þriðja mark dagsins kom. Eftir frábæra sókn fór boltinn af Jón Daða og í netið. Staðan því orðin 3-0!
Stuttu síðar fór Birkir Bjarnason útaf, en í hans stað kom inn á Rúnar Már Sigurjónsson. Á 84. mínútu kom svo Viðar Örn Kjartansson inn á fyrir Jón Daða Böðvarsson.
Fátt var um færi síðustu tíu mínúturnar og 3-0 sigur staðreynd.
Strákarnir mæta næst Albaníu og fer sá leikur fram á Elbasan vellinum í Albaníu og hefst kl. 18:45 að íslenskum tíma.