A karla - 2-1 sigur gegn Tyrklandi
Mynd - fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland vann góðan 2-1 sigur gegn Tyrklandi í undankeppni EM 2020. Ragnar Sigurðsson skoraði bæði mörk Íslands í fyrri hálfleik.
Strákarnir komu af kraft inn í leikinn og strax á 3. mínútu áttu þeir sitt fyrsta færi í leiknum. Jón Daði Böðvarsson átti fínan sprett á kantinum, en setur hann til baka á Gylfa sem sendir hann fyrir. Þar er Birkir Bjarnason, en skot hans er varið.
Leikurinn var nokkuð jafn fyrstu tíu mínúturnar, en eftir það tók Ísland öll völd á vellinum. Á 12. mínútu átti liðið góða skyndisókn eftir aukaspyrnu Tyrkja. Gylfi kemur boltanum á Jón Daða, hann setur hann upp kantinn til Jóhanns Bergs Guðmundsson. Jóhann fer framhjá varnarmanni Tyrkja, setur boltann fyrir en Emil Hallfreðsson náði ekki alveg til boltans.
Þremur mínútum síðar kemst Aron Einar Gunnarsson inn í teiginn hægra megin en fyrirgjöf fer af varnarmanni og í horn. Það var svo á 21. mínútu sem fyrsta markið leit dagsins ljós. Jóhann Berg átti þá frábæra aukaspyrnu inn á teiginn þar sem Ragnar Sigurðsson var og skallaði hann í netið. Ísland komið verðskuldað yfir.
Stuttu síðar var Birkir Bjarnason nálægt því að skora annað mark Íslands þegar hann fékk sendingu í gegnum vörn Tyrkja, en markvörður þeirra varði. Næstu mínúturnar stjórnaði Ísland leiknum og var nokkrum sinnum nálægt því að skapa sér opin færi. Á 32. mínútu tók Gylfi hornspyrnu sem Birkir skallaði áfram og Ragnar var mættur og setti boltann aftur í markið. Staðan orðin 2-0 og Ragnar með bæði mörk Íslands.
Leikurinn róaðist aðeins eftir þetta, Tyrkland komst aðeins meira inn í leikinn á meðan Ísland lokaði svæðum. Þegar fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik minnkuðu þó Tyrkir muninn. Þá skoraði Dorukham Toköz eftir hornspyrnu. Staðan því 2-1 í hálfleik þar sem Ísland var mun sterkari aðilinn.
Síðari hálfleikurinn byrjaði eins og sá fyrri og strax í byrjun hans átti Gylfi gott skot fyrir utan teig, en boltinn fór rétt framhjá markinu. Tíu mínútum síðar átti Kári Árnason skalla að marki eftir aukaspyrnu Gylfa, en boltinn fór beint á markvörð Tyrkja.
Gylfi átti tvö ágætis færi næstu mínúturnar. Fyrst aukaspyrnu fyrir utan teig sem fór yfir markið. Síðan átti hann skot sem fór framhjá marki Tyrklands.
Á 63. mínútu gerði Erik Hamren sína fyrstu skiptingu. Kolbeinn Sigþórsson kom þá inn á, en útaf fór Jón Daði. Leikurinn var jafn næstu mínúturnar, Tyrkir voru ívið meira með boltann en þó án þess að skapa sér færi. Hörður Björgvin Magnússon kom næstur inn á í lið Íslands á 69. mínútu. Útaf fór Ari Freyr Skúlason. Stuttu síðar fékk Hakan Calhanoglou boltann rétt fyrir utan teig, en skot hans fór af varnarmanni og útaf. Mínútu síðar átti Yusuf Yazici skot sem Hannes Halldórsson varði vel.
Á 79. mínútu voru Tyrkir nálægt því að jafna eftir góða aukaspyrnu, boltinn var settur fyrir en Merih Demiral setti boltann yfir. Strax í kjölfarið kom Arnór Ingvi Traustason inn á fyrir Jóhann Berg Guðmundsson.
Þegar fimm mínútum voru eftir af leiknum átti Gylfi aukaspyrnu á vinstri kantinum, boltinn fór beint á Ragnar sem var á fjær en skalli hans fór yfir. Hannes Þór varði síðan glæsilega í lok venjulegs leiktíma eftir skalla Tyrkja.
Tyrkirnir settu góða pressu á íslensku vörnina undir lokin, en hún hélt og 2-1 sigur staðreynd!