A karla - 0-4 tap gegn Frakklandi
Mynd - fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland tapaði 0-4 gegn Frakklandi í undankeppni EM 2020, en leikið var á Stade de France í París.
Heimamenn náðu stjórn á leiknum strax í byrjun, héldu boltanum vel en tókst þó ekki að skapa sér nein opin færi þar sem vörn Íslands var þétt. En það breyttist á 12. mínútu. Kylian Mbappe átti þá frábæra fyrirgjöf sem Umtiti skallaði í stöngina og inn.
Fimm mínútum síðar fékk Ísland sitt fyrsta færi. Aron Einar tók þá langt innkast, Kári Árnason fleytti honum áfram en skalli Ragnars Sigurðssonar var varinn af Lloris í marki Frakka. Skömmu síðar var komið að Frökkum að fá færi. Olivier Giroud átti frábæran skalla eftir góða fyrirgjöf en Hannes Þór Halldórsson varði boltann meistaralega.
Frakkar héldu áfram að stjórna leiknum og var Mbappe nálægt því að skora annað mark Frakka þegar skot hans úr teignum fór rétt framhjá stönginni. Tíu mínútum síðar átti hann annað skot, nú fyrir utan teig, en boltinn fór aftur framhjá.
Síðasta færi fyrri hálfleiks leit síðan dagsins ljós á 43. mínútu. Blaise Matuidi var þá hársbreidd frá því að skora, en skall hans fór rétt framhjá. Staðan því 1-0 fyrir Frakklandi þegar flautað var til hálfleiks.
Það var Birkir Bjarnason sem átti fyrsta færi síðari hálfleiks. Hann átti gott skot fyrir utan teig, en Lloris varði mjög vel. Á 57. mínútu kom Arnór Ingvi Traustason inn á fyrir Rúnar Már Sigurjónsson. Fimm mínútum síðar kom Alfreð Finnbogason inn á fyrir Albert Guðmundsson.
Næst var það Antoine Griezmann sem fékk gott skotfæri rétt fyrir utan teig, en skot hans fór yfir markið. Á 68. mínútu skoraði Oliver Giroud annað mark Frakka í leiknum þegar hann kom boltanum í netið eftir góða fyrirgjöf Benjamin Pavard. Frakkar réðu yfir leiknum á þessum tímapunkti og tíu mínútum síðar skoraði Mbappe þriðja mark Frakklands. Stuttu síðar voru það hins vegar Ísland sem voru nálægt því að skora, en Lloris varði vel skot Gylfa Sigurðssonar.
Ari Freyr Skúlason kom inn á þegar um tíu mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma, en útaf fór Birkir Már Sævarsson. Skömmu síðar skoraði Antoine Griezmann fjórða mark Frakklands eftir góða skyndisókn.
Lítið annað markvert gerðist til leiksloka og 0-4 tap því staðreynd.