A karla - 2-0 sigur gegn Andorra
Mynd - fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland byrjaði undankeppni EM 2020 vel með 2-0 sigri í Andorra. Það voru Birkir Bjarnason og Viðar Örn Kjartansson sem skoruðu mörk Íslands.
Ísland byrjaði leikinn af krafti og héldu boltanum vel. Strax eftir sjö mínútur voru strákarnir nálægt því að taka forystuna. Gylfi Þór og Jóhann Berg spiluðu þá boltanum frábærlega á milli sín, Gylfi kom boltanum fyrir markið þar sem Alfreð og Birkir Bjarnason voru nálægt því að komast í boltann en án árangurs. Mínútu síðar var það frábær fyrirgjöf frá Ara Frey, en Alfreð setti boltann yfir úr góðu færi.
Ísland var mun betri aðilinn fyrstu 15 mínútur leiksins, en fljótlega eftir það kom góður kafli frá Andorra þar sem liðið fékk fimm hornspyrnur en án þess að ná að skapa sér opið færi.
Það var síðan sjö mínútum síðar sem fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós. Birkir Bjarnason skoraði þá með góðum skalla eftir góða fyrirgjöf, en boltinn hafði farið af varnarmanni til Birkis.
Strákarnir tóku aftur völdin á vellinum eftir markið og héldu boltanum vel. Tíu mínútum síðar var Gylfi nálægt því að bæta við marki, en markvörður Andorra varði skot hans frábærlega. Stuttu síðar var komið að Hannesi Þór að verja vel fast skot utan af velli.
Birkir Bjarnason átti skot undir lok hálfleiksins sem fór af varnarmanni og aftur fyrir endamörk, en annars gerðist lítið markvert áður en dómari leiksins flautaði til hálfleiks. Staðan 1-0 fyrir Íslandi.
Strákarnir héldu áfram eins og þeir enduðu fyrri hálfleikinn, voru meira með boltann og héldu honum vel. Eftir tólf mínútur átti Gylfi skot sem fór í varnarmann og datt fyrir Alfreð. Hann var þó í þröngu færi og fór skot hans yfir markið.
Á 63. mínútu fór Aron Einar Gunnarsson útaf, en inn á kom Rúnar Már Sigurjónsson. Fjórum mínútum síðar var Jóhann Berg hársbreidd frá því að skora annað mark leiksins. Rúnar Már átti þá frábæra fyrirgjöf en skalli Jóhanns fór rétt framhjá stönginni.
Á 70. mínútu kom Viðar Örn Kjartansson inn á og útaf fór Alfreð Finnbogason. Nokkrum mínútum síðar átti Birkir Bjarnason skalla rétt yfir markið eftir aukaspyrnu Gylfa Þórs.
Þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum tókst stráknum að auka forystuna. Viðar Örn Kjartansson skoraði þá með frábæru skoti eftir flotta fyrirgjöf Birkis Más.Strax eftir markið kom þriðja, og síðasta, skipting Íslands þegar Arnór Ingvi Traustason kom inn á í stað Jóhanns Bergs Guðmundssonar.
Viðar Örn var svo nálægt því að bæta við öðru marki í uppbótartíma, en skot hans var varið.
2-0 sigur staðreynd og góður sigur í höfn í upphafi undankeppni EM 2020.