Umsagnir um frumvarp til laga um endurgreiðslur vegna mannvirkjagerðar
Fyrir 149. löggjafarþingi liggur nú frumvarp til laga um endurgreiðslur til félagasamtaka til almannaheilla vegna mannvirkjagerðar og annarra framkvæmda. KSÍ hefur sent bréf á héraðsambönd og aðildarfélög sambandsins og hvatt þau til að senda inn umsagnir fyrir tilskilin tímamörk (21. febrúar).
Bréf KSÍ:
Til héraðssambanda og aðildarfélaga KSÍ.
Fyrir 149. löggjafarþingi liggur nú til umfjöllunar ofangreint frumvarp eftirtalinna þingmanna: Jón Gunnarsson, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Njáll Trausti Friðbertsson, Óli Björn Kárason, Páll Magnússon, Vilhjálmur Árnason, Ágúst Ólafur Ágústsson, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Andri Thorsson, Ólafur Ísleifsson, Ólafur Þór Gunnarsson og Willum Þór Þórsson. Frumvarpið var tekið inn á dagskrá þingsins þann 24.01.2019. Málinu var þann sama dag vísað til efnahags- og viðskiptanefndar og er frestur til 21.02.2019 til að senda inn umsagnir til nefndarinnar.
Hér í meðfylgjandi tengli eru allar nauðsynlegar upplýsingar um stöðu málsins: https://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/?ltg=149&mnr=136
Öllum er frjálst að senda nefnd skriflega umsögn um þingmál. Ítrekað er einnig mikilvægi þess að merkja umsögn greinilega með nafni sendanda, dagsetningu og númeri og heiti þingmáls samanber leiðbeiningar um umsagnir um þingmál skv. meðfylgjandi tengli: https://www.althingi.is/thingnefndir/viltu-senda-umsogn/leidbeiningar-um-umsagnir-um-thingmal/
Umrætt frumvarp er mjög mikilvægt skref í uppbyggingu íþróttamannvirkja í landinu. Frekari uppbygging aðstöðu til íþróttaiðkunar er ein grunnforsenda þess að viðhalda, efla starfsemina og fjölga iðkendum. Fyrir knattspyrnuhreyfinguna er mikilvægt að fjölga iðkendum víðs vegar um landið og með aðkomu ríkisins með endurgreiðslu hluta byggingakostnaðar, er verið að opna á enn öflugri uppbyggingu aðstöðunnar. Því liggur mikið við að héraðssambönd og félög sendi inn umsagnir til efnahags- og viðskiptanefndar svo skýrt komi fram vilji og stuðningur íþróttahreyfingarinnar við málið.
Aðildarfélög KSÍ samþykktu á nýliðnu ársþingi sínu svohljóðandi ályktun:
“Tillaga til ályktunar – Endurgreiðsla á hluta kostnaðar vegna íþróttamannvirkja – Tillagan hljóðar svona:
Lagt er til að ársþing KSÍ 2019 samþykki að stjórn og aðildarfélög KSÍ þrýsti á að frumvarp til laga um endurgreiðslur til félagasamtaka til almannaheilla vegna mannvirkjagerðar og annarra framkvæmda, lagt fram af Jóni Gunnarssyni, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, Ásmundi Friðrikssyni, Njáli Trausta Friðbertssyni, Óla Birni Kárasyni, Páli Magnússyni, Vilhjálmi Árnasyni, Ágústi Ólafi Ágústssyni, Guðjóni S. Brjánssyni, Guðmundi Andra Thorssyni, Ólafi Ísleifssyni, Ólafi Þór Gunnarssyni og Willum Þór Þórssyni, nái fram að ganga. Frumvarpið gerir ráð fyrir að endurgreiða skuli félagasamtökum til almannaheilla hluta fjárhæðar sem þau hafa greitt vegna mannvirkjagerðar og annarra framkvæmda sem miða að því að efla starfsemi eða bæta aðstöðu samtakanna. Það er álit stjórnar KSÍ að það sé knattspyrnuhreyfingunni mikið hagsmunamál að frumvarpið verði að veruleika.”
Knattspyrnusamband Íslands hvetur því héraðssambönd og aðildarfélög sambandsins til að senda inn umsagnir fyrir tilskilin tímamörk, þann 21. febrúar nk.