A karla - 2-2 jafntefli gegn Svíþjóð í Katar
Mynd - fotbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Ísland gerði 2-2 jafntefli við Svíþjóð, en leikið var í Katar. Óttar Magnús Karlsson og Jón Dagur Þorsteinsson skoruðu mörk Íslands.
Strákarnir voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og það tók þá aðeins fjórar mínútur að skora fyrsta mark leiksins. Óttar Magnús Karlsson skoraði það með góðu skoti fyrir utan teig. Þeir hefðu getað bætt við fleiri mörkum í fyrri hálfleik, Óttar Magnús var t.a.m. nálægt því að tvöfalda forystuna en staðan var 1-0 í hálfleik.
Svíar komu sterkir út í seinni hálfleikinn og jöfnuðu leikinn eftir aðeins tvær mínútur þegar Viktor Gyökeres kom boltanum í netið. 20 mínútum síðar skoraði Simon Thern annað mark Svía og þeir með ágæta stjórn á leiknum.
Íslensku strákarnir voru þó ekki hættir og Jón Dagur Þorsteinsson jafnaði leikinn í lok venjulegs leiktíma og þar við sat.
Ísland mætir Eistlandi á þriðjudaginn næstkomandi, en leikurinn er einnig spilaður í Katar og hefst klukkan 16:45 að íslenskum tíma.