• mán. 12. feb. 2018
  • Fréttir

Guðmundur Pétursson sæmdur Heiðurskrossi KSÍ á ársþinginu á laugardaginn

IMG_671711

Guðmundur Pétursson, fyrrum varaformaður KSÍ, var sæmdur Heiðurskrossi KSÍ á ársþingi sambandsins á laugardaginn fyrir störf sín í þágu þess. 

Guðmundur var aðalmarkvörður KR árin 1966-1969 og síðan aftur 1971, og varð Íslandsmeistari með liðinu 1968. Hann lék einnig þrjá A-landsleiki árið 1967, gegn Danmörku og Spáni. 

Hann þjálfaði yngri flokka KR í mörg ár, meistaraflokk karla árið 1976 og hluta tímabils 1981. Guðmundur var jafnframt formaður rekstrarfélags KR þegar félagið varð Íslandsmeistari 1999, fyrsti Íslandsmeistaratitill liðsins í 31 ár. 

Guðmundur settist í stjórn KSÍ árið 1990 og var varaformaður sambandsins árin 1990-1995. Hann hefur verið þingforseti á ársþingi KSÍ árin 2006-2016. Guðmundur á sæti í áfrýjunardómstól KSÍ, hann var eftirlitsmaður á vegum UEFA og sat í áfrýjunarnefnd UEFA. 

Guðmundur hefur verið nátengdur íslenskri knattspyrnu frá unga aldri og unnið gríðarlega gott starf í þágu knattspyrnuhreyfingarinnar á Íslandi, hvort sem það er á sviði félags- eða landsliða. KSÍ þakkar honum fyrir frábær störf hans í gegnum tíðina.