TUFF-verkefnið til að auka þátttöku barna af erlendum uppruna í íþróttum í Breiðholti
Undanfarnar vikur hefur verið unnið að undirbúningi nýs verkefnis sem hefur það að markmiði að auka þátttöku barna og unglinga af erlendum uppruna í íþróttum og um leið að auðvelda sömu börnum og foreldrum þeirra aðlögun að íslensku samfélagi.
Reykjavíkurborg hefur valið Breiðholtið sem vettvang fyrir þetta verkefni og óskað eftir þátttöku ÍR í því ásamt Leikni og Ægi. Alþjóðasamtökin TUFF eru aðilar að verkefninu. Reykjavíkurborg hefur þegar samþykkt framlag til að kosta umsjón, þjálfun að hluta og kynningu en verkefnið hefur víðtækan stuðning s.s. frá, ÍBR, ÍSÍ, UMFÍ og einkaaðilum.
Alþjóðasamtökin TUFF hafa staðið að sambærilegum verkefnum víða um Bretland, í Ástralíu og Belgíu. TUFF samtökin eru m.a. studd af innanríkisráðuneyti Bretlands, hafa páfann í Róm sem verndara og stærsta PR fyrirtæki heims sem sér um að koma verkefnum þeirra í fjölmiðla.
Fyrsti fræðslufundur um verkefnið var haldinn miðvikudagskvöldið 24. janúar í Gerðubergi, en hér að neðan má sjá upptöku af fundinum.