• fim. 28. des. 2017
  • Fréttir

Karlalandsliðið lið ársins og Heimir Hallgrímsson þjálfari ársins

d1ff6847-726c-44f5-9eb2-8a36d877519c

Karlalandsliðið í knattspyrnu var kjörið lið ársins 2017 af Samtökum íþróttafréttamanna og Heimir Hallgrímsson valinn þjálfari ársins.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir var valinn íþróttamaður ársins, en Aron Einar Gunnarsson og Gylfi Þór Sigurðsson voru einnig í topp þremur. KSÍ óskar Ólafíu til hamingju með titilinn og frábæran árangur árið 2017.

Karlalandsliðið í fótbolta lið ársins

Karlalandsliðið í fótbolta var kjörið lið ársins 2017 af Samtökum íþróttafréttamanna. Þetta er þriðja árið í röð og í fjórða sinn á síðustu fimm árum sem karlalandsliðið í fótbolta er valið lið ársins. Liðið hafði betur í baráttu við Þór/KA og karlalið Vals í handbolta sem voru einnig tilnefnd eftir að hafa lent í þremur efstu sætunum í kjöri meðlima Samtaka íþróttafréttamanna. 

Íslenska landsliðið hélt áfram að ná frábærum árangri árið 2017 og komst í fyrsta sinn í sögu þess á HM í knattspyrnu, sem fer fram í Rússlandi 2018. Íslensku strákarnir unnu sinn riðil í undankeppni HM 2018, en með þeim þar voru þrjár aðrar þjóðir sem kepptu á EM 2016 í Frakklandi. Þær voru Króatía, Úkraína og Tyrkland. Þeir unnu sjö leiki þar, gerðu eitt jafntefli og töpuðu tveimur og enduðu árið í 22. sæti heimslista FIFA. 


Heimir þjálfari ársins

Heimir Hallgrímsson er þjálfari ársins á Íslandi árið 2017, en hann varð fyrsti íslenski þjálfarinn til að koma landsliði á HM í knattspyrnu á þessu ári. Heimir tók einn við þjálfun liðsins eftir EM 2016 í Frakklandi og hélt frábærum árangri liðsins áfram og vann Ísland riðil sinn í undankeppni HM 2018 og verður á meðal þáttökuþjóða í Rússlandi næsta sumar.