KSÍ gerir sátt vegna birtingar á verði aðgöngumiða
Knattspyrnusamband Íslands og Samkeppniseftirlitið hafa gert með sér sátt í samræmi við 17. gr. f samkeppnislaga nr. 44/2005 og 22. gr. reglna nr. 880/2005 um málsmeðferð Samkeppniseftirlitsins.
Sátt þessi er tilkomin vegna upplýsingabeiðnar sem barst KSÍ frá Samkeppniseftirlitinu, þann 23. maí sl., vegna frétta um sameiginlegt miðaverð á leiki í Pepsi-deild karla sumarið 2017. Óskaði Samkeppniseftirlitið eftir upplýsingum um það á hvaða grundvelli og með hvaða hætti sameiginlegt miðaverð hafi verið ákveðið. Benti Samkeppniseftirlitið á að samkeppnislög (sjá nánar 10.- og 12. gr.) leggja bann við samningum og samþykktum á milli fyrirtækja og ákvörðunum samtaka fyrirtækja sem hafa það að markmiði eða af þeim leiðir að komið sé í veg fyrir samkeppni, hún takmörkuð eða henni raskað.
KSÍ greindi Samkeppniseftirlitinu frá því að sambandið hafi árlega birt í svokallaðri „handbók leikja“ viðmiðunarverð aðgöngumiða í efstu deild karla. Hafi það verið gert að teknu tilliti til ákvarðana félaga í efstu deild hverju sinni og hafi KSÍ hvorki í ár né fyrri ár haft í hyggju að raska nokkurri samkeppni með birtingu á slíku sameiginlegu miðaverði. Útgáfa handbókar leikja ár hvert hafi haft það að leiðarljósi að vera upplýsandi og til hægðarauka fyrir aðildarfélög KSÍ við framkvæmd leikja. Það væri skýr vilji sambandsins að starfsemi á vettvangi þess og aðildarfélaga sé ávallt samþýðanleg samkeppnislögum.
Til að bregðast skjótt við ábendingu Samkeppniseftirlitsins var ákveðið að fjarlægja viðeigandi ákvæði um miðaverð úr handbók leikja og var sú ákvörðun staðfest af hálfu stjórnar KSÍ þann 24. maí 2017. Var ný útgáfa af handbókinni birt á vef KSÍ þann sama dag.
Enn fremur, í því skyni að stuðla að því að starfsemi á vettvangi sambandsins sé í samræmi við samkeppnislög, hefur KSÍ skuldbundið sig með sátt við Samkeppniseftirlitið til að grípa til eftirfarandi aðgerða:
• KSÍ mun beita sér fyrir því að á vettvangi sambandsins verði ekki fjallað um, miðlað, skipts á upplýsingum eða höfð samvinna um verð, verðþróun, viðskiptakjör eða önnur viðskiptaleg eða samkeppnisleg málefni aðildarfélaga sambandsins.
• KSÍ mun ekki fara með málefni eða opinbert fyrirsvar er varða verðlagningu aðildarfélaga sinna. KSÍ er óheimilt að grípa til aðgerða sem geta leitt til samræmingar á verðlagningu og öðrum samkeppnisþáttum í starfsemi aðildarfélaga.
• KSÍ mun sjá til þess starfsemi sambandsins sé ávallt samþýðanleg samkeppnislögum og stuðla að viðskiptalegu sjálfstæði aðildarfélaga sambandsins þannig að samkeppni á viðeigandi mörkuðum verði ekki raskað.
• Stjórn og starfsfólk KSÍ mun taka sérstakt mið af ákvæðum og markmiðum samkeppnislaga og stuðla að því að samstarf aðildarfélaga sambandsins verði ávallt samþýðanlegt samkeppnislögum.
• KSÍ skal í stefnumótun sinni vekja sérstaka athygli á mikilvægi virkrar samkeppni og skal sambandið stuðla að fræðslu um samkeppnismál til aðildarfélaga sinna.
Loks mun KSÍ innleiða samkeppnisréttaráætlun þar sem fjallað verður um hvernig starfsemi sambandsins og aðildarfélaga lýtur samkeppnislögum og kveður á um verklag innan sambandsins sem miðar að því að tryggja eftirfylgni við sáttina og samkeppnislög. Verður áætlun þessi endurskoðuð reglulega.