• mið. 06. júl. 2016
  • Fréttir

Knattspyrnan er sameiningarafl

1926607_01193309

Knattspyrnan er sameiningarafl. Þar sameinast stuðningsmenn af ólíku þjóðerni og uppruna. Sameiginlegur áhugi stórs hluta mannkyns á þessari íþrótt sem okkur þykir svo vænt um færir fólk nær hvert öðru og við notum íþróttina markvisst til að færa fólk saman, en ekki til að stía því í sundur. 

Í miðri þeirri gleði og stolti sem ríkir eftir frábæran árangur landsliðsins okkar á EM er ömurlegt að rekast á misnotkun af því tagi sem danski þjóðernisflokkurinn Danskernes Parti hefur gripið til, en í auglýsingu frá flokknum er (að sjálfsögðu í fullkomnu leyfisleysi) birt mynd af fyrirliðanum Aroni Einari með íslenska liðið á bak við sig annarsvegar og nokkrum liðsmönnum þess franska hinsvegar, með dylgjum um að franska liðið sé í raun afrískt lið sem ekki eigi heima í Evrópu.

Sundrungaröfl eiga ekki heima í knattspyrnuhreyfingunni og knattspyrnuyfirvöld í Evrópu hafa barist af hörku gegn rasisma í íþróttinni. Þeirri baráttu er hvergi nærri lokið og KSÍ tekur þátt í því verkefni af fullum krafti. Í úrslitakeppni EM ávann Ísland og Íslendingar sér virðingu heimsbyggðarinnar með jákvæðri framkomu og KSÍ frábiður sér alla tengingu við haturskenndan áróður af þessu tagi. 

KSÍ harmar því myndbirtingu Danskernes Parti og mun fara fram á að henni verði tafarlaust hætt. Við viljum jafnframt hvetja almenning til að tilkynna slíkar myndbirtingar til Facebook.