• mán. 19. jan. 2015
  • Landslið

Ísland mætir Kanada í kvöld kl. 21:00

Frá æfingu í Orlando
AEfing-Orlando

Ísland mætir Kanada í vináttulandsleik í kvöld í annað skiptið á fjórum dögum en leikið verður á háskóllavelli UCF í Orlando í Florida.  Leikurinn hefst kl. 21:00 að íslenskum tíma, eða kl. 16:00 að staðartíma, og verður í beinni útsendingu hjá SkjáSport.  Fyrri leik þjóðanna lauk með 2 - 1 sigri Íslands þar sem Kristinn Steindórsson og Matthías Vilhjálmsson skoruðu mörkin.

Spáin er góð fyrir leikdag, sól og um 17 stiga hiti en fljótt er að kólna þegar sólarinnar nýtur ekki við og var orðið kalt í seinni hálfleik í leiknum á föstudag. 

Liðið æfði í gær við fína aðstæður en æfingin byrjaði á því að sungið var fyrir afmælisbarn dagsins, Elías Már Ómarsson, sem varð tvítugur í gær.  Farið var svo yfir leikinn framundan á fundi í gærkvöldi en allir leikmenn hópsins eru tilbúnir í slaginn.  Létt æfing verður svo tekin í dag þar sem leikmenn hafa frjálsar hendur um hvað þeir gera og er ærið misjafnt hvað menn leggja fyrir sig á þessum æfingum.

Unnið hafði verið í keppnisvellinum sem var ansi tættur eftir fyrri leikinn en völlurinn leit mjög vel út í gær en er engu að síður nokkuð laus í sér. 

Kanadamenn ætla sér sigur í seinni leiknum og þó svo að um vináttulandsleiki sé að ræða þá reiknast þessir leikir inn í þegar reiknaður er styrkleikalisti FIFA.  Sá listi mun skipta máli í júní en þá verður dregið í riðla í undankeppni HM 2018 og verður ráðað í styrkleikaflokka eftir þágildandi lista.

Byrjunarliðið verður tilkynnt síðar hér á síðunni og Facebooksíðu KSÍ, eða um kl. 18:30.