• fös. 30. mar. 2012
  • Fræðsla

Grasrótardagur UEFA og KSÍ 16. maí

Gylfi_Orrason_Breidablik_HK
Gylfi_Orrason_Breidablik_HK

Þann 16. maí er Grasrótardagur UEFA og KSÍ.  Í þeirri viku munu aðildarlönd UEFA og félög innan aðildarlandanna gangast fyrir ýmsum viðburðum þar sem vakin er athygli á starfsemi félaganna. 

Grasrótarknattspyrna hefur alla tíð leikið stórt hlutverk í knattspyrnuflórunni og er mikilvægur hluti þeirrar staðreyndar að þessi íþrótt sem er okkur svo kær sé svona vinsæl, ekki bara hér á Íslandi, heldur um allan heim.

Grasrótarknattspyrna getur flokkast sem ýmislegt, t.d. knattspyrna yngri iðkenda eða eldri flokks, knattspyrna fatlaðra, hádegisbolti vinahóps, keppni milli bekkja á skólavellinum, síðdegisleikur hóps af börnum á sparkvelli, knattspyrna blandaðra leikmanna fatlaðra og ófatlaðra, o.s.frv.  Grasrótarknattspyrna getur verið svo margt. Hugtakið er kannski svolítið óáþreifanlegt, en við þekkjum grasrótarknattspyrnu þegar við sjáum hana.

Aðeins lítill hluti þeirra sem stunda knattspyrnu ná langt í íþróttinni og leika fyrir meistaraflokkslið sinna félaga, enn færri verða atvinnumenn í íþróttinni og segja má að atvinnumennskan sé aðeins toppurinn á ísjakanum.  Ef grasrótinni er veitt meiri athygli er líklegra að brottfall minnki og að þátttakendum verði haldið innan knattspyrnuhreyfingarinnar.

KSÍ hvetur aðildarfélög sín til að setja upp viðburði vikuna 12. - 19. maí til að vekja athygli á grasrótarstarfi sínu.  Geti KSÍ komið að viðburði sem félag setur upp á einhvern hátt, aðstoðað, veitt ráðgjöf eða veitt stuðning með einhverjum hætti, þá vinsamlega hafið samband við Guðlaug Gunnarsson á skrifstofu KSÍ.