U21 leikur gegn Noregi á þriðjudag
U21 landslið karla leikur annan leik sinn í undankeppni EM 2013 þegar það mætir Norðmönnum á Kópavogsvellinum kl. 16:15 á þriðjudag. Íslenska liðið fór vel af stað í keppninni og vann 2-1 sigur á Belgum á Vodafone-vellinum í síðustu viku. Björn Bergmann Sigurðarson skoraði bæði mörk íslenska liðsins í þeim leik, en hann verður í A-landsliðshópnum sem mætir Kýpur í undankeppni EM 2012 á Laugardalsvellinum síðar sama dag og er því ekki í U21 liðinu gegn Noregi.
Þessar þjóðir hafa mæst fimm sinnum áður í U21 landsliðum karla og standa leikar nokkuð jafnir samanlagt, tveir sigrar á lið og eitt jafntefli.
Leikur U21 karla gegn Noregi verður í beinni útsendingu á Stöð 2 sport og hefst útsending kl. 16:00.