88 mínútur á klukkunni
Það voru komnar 88 mínútur á klukkuna þegar Norðmenn skoruðu eina mark leiksins við Íslendinga í undankeppni EM 2012, en liðin mættust á Ullevaal-leikvanginum í Osló á föstudagskvöld. Markið kom úr vítaspyrnu sem dæmd var eftir að Stefán Logi Magnússon, markvörður íslenska liðsins, felldi John Carew, sem var kominn einn í gegn. Sóknarmaðurinn Moa (sjá mynd), sem hefur verið sjóðheitur upp á síðkastið, gerði engin mistök af punktinum og setti boltann örugglega í netið.
Leikurinn hafði verið nokkuð jafn, þó Norðmenn hafi verið eilítið meira með boltann. Hvorug lið náðu að skapa sér mörg færi, en eitt til tvö á báða bóga voru nálægt því að hafna í markinu. Rúrik Gíslason átti t.a.m. glæsilegt skot í upphafi leiks sem markvörður norska liðsins varði frábærlega. Skot Rúriks kom eftir 3 mínútur, og þessar 3 mínútur hafði íslenska liðið verið með boltann allan tímann, frá upphafsspyrnu og fram að skotinu, og voru stuðningsmenn þeirra norsku farnir að ókyrrast.
Íslenska liðið lék vel í þessum leik. Boltinn gekk vel manna á milli með stuttum sendingum og greinilegt að menn höfðu mikla trú á verkefninu, voru samstilltir og börðust eins og ljón. Uppskeran er því miður ekkert stig og ekkert mark, og þetta sigurmark í lokin minnir óneitanlega á útileikinn við Dani í fyrra. Liðið leikur vel, nær þó ekki að skora og sigurmark andstæðinganna dettur inn í blálokin.
Það þýðir þó ekki að gráta Björn bónda, heldur safna liði og mæta á Laugardalsvöllinn á þriðjudag. Þá koma Kýpurmenn í heimsókn. Stákarnir eru staðráðnir í að taka þrjú stig þar og lyfta sé upp úr neðsta sæti riðilsins. Stuðningsmenn eru hvattir til að fjölmenna og styðja við bakið á liðinu.
Áfram Ísland!