• fim. 01. sep. 2011
  • Landslið

U21 karla - Íslenskur sigur á Vodafonevellinum

Byrjunarlið U21 karla gegn Belgíu á Vodafonevellinum 1. september 2011
2011-U21-karla-Byrjunarlidid-gegn-Belgiu

Strákarnir í U21 byrjuðu undankeppni EM 2013 á besta mögulega máta þegar þeir lögðu Belga í kvöld á Vodafonevellinum.  Lokatölur urðu 2 -1 Íslendingum í vil eftir að staðan í leikhléi hafði verið 1 - 1.  Björn Bergmann Sigurðarson skoraði bæði mörk Íslendinga.

Íslenska liðið byrjaði leikinn af krafti og voru beittari aðilinn fyrri hluta hálfleiksins.  Fyrsta markið leit svo dagsins ljós á 25. mínútu þegar Björn Bergmann komst einn í gegnum vörn Belga og afgreiddi boltann glæsilega yfir markvörð gestanna.

Belgar komust svo betur inn í leikinn og jöfnuðu leikinn þremur mínútum fyrir leikhlé eftir stungusendingu.  Staðan því jöfn þegar tékkneski dómarinn gaf merki um leikhlé.

Það voru svo gestirnir voru beittari í síðari hálfleiknum en íslensku strákarnir þó alltaf líklegir og t.a.m. fékk Björn Bergmann besta færið þegar hann komst einn inn fyrir vörn Belga en markvörðurinn sá við honum.  Honum brugðust hinsvegar ekki bogalistin fjórum mínútum fyrir venjulega leiktíma þegar hann afgreiddi stungusendingu í netið.  Tíminn reyndist of naumur fyrir Belga til að jafna metin og íslensku strákarnir fögnuðu sætum sigri.

Frábær byrjun á nýrri undankeppni og mikið breytt lið Íslands frá fyrri keppni, sýndi að það getur svo sannarlega sýnt klærnar í þessari keppni einnig.  Það er skammt stórra högga á milli því liðið verður í eldlínunni að nýju næstkomandi þriðjudag, 6. september, þegar tekið verður á móti Norðmönnum á Kópavogsvelli kl. 16:15.