• mið. 31. ágú. 2011
  • Landslið

UEFA heiðrar Rúnar fyrir að leika yfir 100-A landsleiki

Rúnar Kristinsson í sínum síðasta landsleik gegn Ítölum á Laugardalsvelli 2004
Runar_Kristinsson_2004

Fyrir landsleik Íslands og Kýpurs á Laugardalsvelli þriðjudaginn 6. september mun Geir Þorsteinsson formaður KSÍ, fyrir hönd UEFA, afhenda Rúnari Kristinssyni sérstaka viðurkenningu fyrir að vera einn af þeim 109 leikmönnum innan aðildarsambanda UEFA sem hefur leikið yfir 100 A-landsleiki fyrir þjóð sína.  Leikmennirnir 109 koma frá 36 knattspyrnusamböndum og fer viðlíka afhending fram á heimaleikjum þessara þjóða í undankeppni EM í september og október. 

Allir fá þeir afhentan annars vegar sérstakan verðlaunapening og hins vegar sérhannaða húfu.  Hvers vegna húfu (?), kynni fólk að spyrja sig.  Þannig er, að þegar fyrstu landsleikirnir fóru fram, milli Skotlands og Englands á ofanverðri 19. öld, tíðkaðist að leikmenn fengju húfu („cap“ á ensku) til minningar um að hafa tekið þátt í leiknum.  Sú hefð hélt reyndar lengi vel velli á Bretlandseyjum.  Seinna meir var landsleikjafjöldinn talinn í húfum („caps“) og enn er gjarnan talað um „caps“ þegar fjallað er um landsleikjafjölda manna á enskri tungu.

Rúnar Kristinsson, sem lék alls 104 A-landsleiki fyrir Íslands hönd og skoraði 3 mörk, er svo sannarlega í góðum hópi, því á meðal þeirra sem UEFA heiðrar á sama hátt eru kappar eins og Michael Laudrup, Bobby Charlton, David Beckham, Zinedine Zidane, Franz Beckenbauer, Lothar Matthaus, Fabio Cannavaro, Edwin van der Sar, Pat Jennings, Luis Figo, Gheorghe Hagi, Kenny Dalglish, Raúl González og Andriy Shevchenko, svo einhverjir séu nefndir.