Michel Platini heimsækir Ísland
Forseti Knattspyrnusambands Evrópu (UEFA), Michel Platini, mun heimsækja Ísland föstudaginn 22. október og funda með forráðamönnum Knattspyrnusambands Íslands. Með Platini í för verður kona hans Christéle Platini, Allan Hansen sem situr í Framkvæmdastjórn UEFA, Theodore Theodoridis og Kevin Lamour frá UEFA.
Þetta er í annað skiptið sem Michel Platini heimsækir Ísland eftir að hann tók við starfi forseta UEFA árið 2007. Hann kom hér í júlí árið 2007 þegar hann afhenti sigurlaunin í úrslitakeppni EM U19 kvenna og var einnig viðstaddur vígslu nýrra húsakynna KSÍ. Það er mikið fagnaðarefni að fá Platini hingað til lands enda hafa samskipti hans og íslenskrar knattspyrnu verið einstaklega farsæl.
Michel Platini mun halda blaðamannafund með fjölmiðlum í tilefni af heimsókn sinni og verður staður og stund hans tilkynntur síðar.