• mið. 13. okt. 2010
  • Landslið

Ljóst hvaða þjóðir leika í úrslitakeppni EM U21 í Danmörku

UEFA EM U21 karla
uefa-u21-denmark-2011

Í gærkvöldi var það ljóst hvaða þjóðir munu leika í úrslitakeppni EM U21 karla í Danmörku á næsta ári.  Ísland er þar á meðal átta þjóða í úrslitakeppni og er það í fyrsta skiptið sem það gerist í þessum aldursflokki.  Aðrar þjóðir eru auk gestgjafanna í Danmörku: Tékkland, Spánn, England, Sviss, Hvíta Rússland og Úkraína.

Dregið verður í riðla í Álaborg í Danmörku, 9. nóvember næstkomandi.  Þjóðunum er raðað niður eftir árangri í undankeppninni og er Ísland í efri styrkleikaflokki ásamt gestgjöfum Danmerkur, Tékklandi og Spáni.

Danir og Tékkar fara í sinn hvorn riðilinn, Danir sem gestgjafar og Tékkar sem sú þjóð sem bestan árangur er með eftir undankeppnina.  Þá eru eftir úr efri styrkleikaflokki Spánn og Ísland sem verða dregin í sinn hvorn riðilinn og geta þ.a.l. ekki lent saman í riðli.  Eftir það er dregið úr neðri styrkleikaflokknum en þar eru: England, Sviss, Hvíta Rússland og Úkraína.  Skiptast þessar þjóðir niður á riðlana tvo, tvær þjóðir í hvorn riðil.

Úrslitakeppnin sjálf fer svo fram í Danmörku dagana 11. - 25. júní á næsta ári.  Leikið verður í: Álaborg, Viborg, Herning og Árósum.