• mán. 17. nóv. 2008
  • Fræðsla

Þjálfarar kynntu sér þjálfun ungmenna í Sviss

Þjálfarahópur er kynnti sér þjálfunaraðferðir ungmenn í Sviss
Hopmynd_2

Dagana 3.-6. nóvember fór ellefu manna hópur frá Íslandi til Sviss til að kynna sér þjálfun afreks ungmenna. Með í för voru níu þjálfarar, einn túlkur og einn starfsmaður KSÍ. Ferðin er hluti af svokölluðu UEFA Study Group Scheme, en það er verkefni sem UEFA setti á laggirnar fyrr á þessu ári og gefur knattspyrnusamböndum í Evrópu kleift að heimsækja önnur knattspyrnusambönd, með það fyrir augum að kynna sér starfsemina þar í landi. Með í för var hópur frá San Marínó.

Kvöldið sem að hópurinn kom út hélt Hansruedi Hasler, fræðslustjóri svissneska knattspyrnusambandsins, stutta kynningu á hugmyndafræði þeirra um þjálfun unglinga. Hasler þessi er með 30 undirmenn sem hafa það að markmiði að heimsækja félögin í landinu, fræða þjálfara og koma á framfæri þeim hugmyndum sem svissneska knattspyrnusambandið hefur mótað um knattspyrnu og á hvað skuli leggja mesta áherslu.

4. nóvember byrjaði með heimsókn í Lausanne og þar sem hópurinn kynnti sér aðstöðu félagsins. Lausanne er félag í næst efstu deildinni í Sviss en þar er starfrækt akademía þar sem krakkar stunda nám samhliða skóla. Litið var stuttlega á æfingu hjá aðalliði félagsins, en Lausanne hefur m.a. alið af sér Stéphane Chapuisat sem gerði garðinn frægan með Dortmund og á að baki 103 landsleiki fyrir Sviss.

Eftir heimsóknina í Lausanne var haldið til Payerne. Í Payerne rekur svissneska knattspyrnusambandið knattspyrnuskóla þar sem bestu unglingarnir í nágreninu æfa og stunda nám. Þessir leikmenn æfa í Payerne alla virka daga, fara síðan til síns heima á föstudögum og spila leik með sínu félagsliði á sunnudögum. Fylgst var með æfingu í Payerne þar sem ágætlega var farið í helstu áherslur í þjálfun í þeim knattspyrnuskóla.

5. nóvember var haldið til Macolin, sem er eins konar landsmiðstöð íþrótta í Sviss. Aðstaðan þar er fyrsta flokks og skiptir þá litlu um hvaða íþróttagrein er að ræða. Þegar okkar hóp bar að garði var U-16 ára landslið Sviss í mælingum sem gerðar eru einu sinni á ári. Landsliðsmennirnir eru teknir í kraft-, hraða- og þrekpróf. Eftir það eru niðurstöðurnar sendar til félaganna og þeim bent á hvað viðkomandi leikmaður þarf að bæta.

Eftirfarandi þjálfarar voru í íslenska hópnum: Hrafnhildur Guðnadóttir, Gunnar Rafn Borgþórsson, Guðmundur Arnar Guðmundsson, Jón Hálfdán Pétursson, Jón Ólafur Daníelsson, Snædís Hjartardóttir, Sævar Þór Gylfason, Unnar Þór Garðarsson og Víglundur Páll Einarsson.
Túlkur hópsins var Grétar Skúlason og Dagur Sveinn Dagbjartsson, starfsmaður á fræðslusviði KSÍ, fór fyrir hönd Knattspyrnusambands Íslands.

“Mér fannst þetta vera nokkuð skemmtileg ferð. Það sem mér fannst standa upp úr var aðstaðan í landsmiðstöðinni sem við heimsóttum á miðvikudeginum. Einnig fannst mér gaman að fylgjast með æfingunni þessari einu sem við sáum og hefðu þær mátt vera fleiri.” – Guðmundur Arnar Guðmundsson.

“Það var mjög athyglisvert að fá að skoða og fylgjast með mælingunum sem voru seinni daginn. Aðstaðan frábær og greinilega vel fylgst með leikmönnunum.” – Sævar Þór Gylfason.

Þjálfarahópur er kynnti sér þjálfunaraðferðir ungmenn í Sviss