• mið. 22. ágú. 2007
  • Landslið

Jafnt hjá Íslandi og Kanada

Úr vináttulandsleik Íslands og Kanada 22. ágúst 2007
Island_Kanada_2007

Íslendingar og Kanadamenn gerðu jafntefli í vináttulandsleik er leikinn var á Laugardalsvelli í kvöld.  Lokatölur urðu 1-1 eftir að staðan hafði verið markalaus í hálflieik.  Gunnar Heiðar Þorvaldsson skoraði mark Íslendinga á 65. mínútu.

Íslendingar byrjuðu leikinn af fullum krafti og Emil Hallfreðsson átti gott skot strax á 2. mínútu sem markvörður Kanada varði vel í  horn.  Upp úr hornspyrnunni átti Brynjar Björn skalla sem markvörðurinn sló yfir.  Íslendingar voru ákveðnari í sínum sóknaraðgerðum framan af en Kanadamenn komu meira inn í leikinn er leið á, án þess þó að ógna marki Íslendinga.  Lítið var um opin marktækifæri sem eftir lifði af fyrri hálfleiknum og þegar finnski dómarinn flautaði til hálfleiks hafði hvorugu liðinu tekist að skora.

Íslendingar byrjuðu seinni hálfleikinn einnig af krafti og voru töluvert sterkari aðilinn.  Markið lét þó bíða á eftir sér en á 65. mínútu óð Baldur Aðalsteinsson upp hægri kantinn og sendi boltann fyrir markið þar sem Gunnar Heiðar Þorvaldsson skoraði örugglega.  Íslendingar virtust ætla að bæta við og fengu til þess ágætis tækifæri en 10 mínútum síðar náðu Kanadamenn að jafna.  Eftir það dofnaði heldur yfir leiknum og jafntefli staðreynd, 1-1.

Áhorfendur á leiknum voru 4.359 talsins og var sérstaklega skemmtilegt að heyra og sjá til hóps stuðningsmanna er hvöttu íslenska liðið af krafti allan leikinn, klæddir íslenskum landsliðstreyjum.

Næstu landsleikir Íslands eru ekki af verri endanum en laugardaginn 8. september verður leikið við Spán og miðvikudaginn 12. september er leikur gegn Norður-Írlandi.  Báðir þessir leikir eru í undakeppni EM 2008 og fara fram á Laugardalsvellinum.  Miðasala á þessa leiki hefst mjög fljótlega og ættu því knattspyrnuáhugamenn að vera í startholunum til þess að ná sér í miða.