• mán. 18. jún. 2007
  • Landslið

Ísland - Serbía fimmtudaginn 21. júní kl. 21:15

Áhorfendur á Frakkaleiknum fagna sigri
Island_Frakkland_kv_16juni_2007_sigrifagnad_ahorf

Ísland tekur á móti Serbíu í undankeppni Evrópumóts kvennalandsliða.  Leikurinn fer fram fimmtudaginn 21. júní á Laugardalsvelli og hefst kl. 21:15.  Íslenska liðið hefur farið vel af stað í riðlakeppninni og er með fullt hús stiga eftir tvo leiki.

Serbneska liðið hefur leikið einn leik til þessa í keppninni en þær báru sigurorð af Slóvenum á útivelli með fimm mörkum gegn engu.  Það má búast við hörkuleik í Laugardalnum á fimmtudaginn og aldrei verður of oft minnst á hversu áhorfendur geta verið mikilvægir.

Miðasala á leikinn er hafin á netinu og er hægt að kaupa miða hér.  Miðinn kostar 1000 krónur en frítt er fyrir 16 ára og yngri.  Frjálst sætaval er í vesturstúkunni.  Einnig er hægt að kaupa miða á Laugardalsvelli á fimmtudagskvöldið er leikurinn fer fram.

Leiktíminn er nokkuð óvenjulegur að því leyti að leikurinn hefst ekki fyrr en kl. 21:15.  Er þessi leiktími kominn til vegna þess að fyrr um kvöldið fer fram setningarathöfn Alþjóðaleika ungmenna á Laugardalsvelli.

Landsliðshópurinn fékk frí á þjóðhátíðardaginn en undirbúningur fyrir Serbaleikinn hefst af krafti í dag með æfingu á Versalavelli.

Íslensku stelpurnar eiga sér þann draum og hafa sett sér það takmark að komast í úrslitakeppnina í Finnlandi árið 2009.  Frábær sigur stelpnanna á geysisterku liði Frakka hefur svo sannarlega blásið nýju lífi í þennan draum.  Fyrir leikinn gegn Frökkum sl. laugardag sýndi Sigurður Ragnar Eyjólfsson, landsliðsþjálfari, stelpunum myndasyrpu sem sett hafði verið saman.  Þessa myndasyrpu má sjá hér að neðan og vonandi blæs hún sama baráttuanda í brjóst áhorfenda fyrir leikinn á fimmtudagskvöld eins og hún gerði fyrir stelpurnar á laugardaginn.

ÁFRAM ÍSLAND!!

Myndasyrpa