• mið. 06. sep. 2006
  • Landslið

Ísland - Danmörk í kvöld kl. 18:05

Alid-byrjunarlid-01a-togt
Alid-byrjunarlid-01a-togt

Í kvöld kl. 18:05 flautar Rússinn Nikolai Ivanov til leiks í leik Íslands og Danmerkur.  Þetta er leikur sem margir hafa beðið eftir með mikilli eftirvæntingu og er uppselt á þennan leik.  Þetta er fyrsti leikur Dana í F riðli riðlakeppni EM 2008 en Íslendingar unnu sinn fyrsta leik, gegn Norður-Írum á útivelli.

Eins og margir vita hafa Íslendingar aldrei unnið sigur á Dönum í A-landsleik karla.  Leikurinn í kvöld er sá tuttugasti á milli þjóðanna og er tölfræðin svo sannarlega Dönum í vil.  Jafntefli hefur orðið í fimm skipti en Danir hafa unnið fjórtán sinnum.  Íslendingar hafa skorað í þessum leikjum 13 mörk en Danir 63 stykki.  Síðast þegar að þjóðirnar mættust, árið 2001, sigruðu Danir 6-0.

Áður var þess getið að Nikolai Ivanov muni dæma leikinn.  Honum til aðstoðar verða landar hans frá Rússlandi, Nikolai Golubev og Viacheslav Semenov.  Fjórði dómari er einnig Rússi, Aleksandr Gvardis.

Það er mikilvægt að áhorfendur verði vel með á nótunum alveg frá upphafi.  Fólk er hvatt til að mæta snemma til leiks til þess að forðast biðraðir.  Með það í huga er blásið til fjölskylduhátíðar á Gervigrasvelli Þróttar í Laugardalnum.  Verður það ýmislegt í boði m.a. hoppukastalar, knattþrautir og fleira.

ÁFRAM ÍSLAND