Platini tók saltfisk með sér heim
Eins og greint hefur verið frá hér á vefnum var Michel Platini heiðursgestur KSÍ á Hótel Nordica á mánudag, þegar undirritaðir voru samstarfssamningar við sjö fyrirtæki undir yfirskriftinni Alltaf í boltanum.
Platini kom hingað til lands á formannafund fyrir tveimur árum síðan og bragðaði þá saltfisk frá Þorbirni Fiskanesi í Grindavík, sem hann sagði vera þann besta fisk sem hann hefði nokkru sinni fengið.
Þegar hann kom hingað til lands um helgina spurði hann sérstaklega hvort hann gæti fengið sams konar saltfisk til að taka með sér heim.
Jónas Þórhallsson, sem er formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur, gekk strax í málið og útvegaði léttsöltuð þorskflök (fryst) frá Þorbirni Fiskanesi, sem Platini tók með sér í flug á þriðjudagsmorgunn.
Með pakkanum voru að sjálfsögðu nokkrar tillögur til Platini um hvernig best væri að framreiða herlegheitin.