• mið. 28. apr. 2004
  • Lög og reglugerðir

Stækkun EES 1. maí

Þó að EES svæðið stækki 1. maí með inngöngu Eistlands, Lettlands, Litháens, Kýpur, Möltu, Póllands, Slóvakíu, Slóveníu, Tékklands og Ungverjalands hafa íslensk stjórnvöld ákveðið að ákvæði um frjálsa för launafólks taki ekki gildi hér á landi að sinni nema í tilfelli Kýpur og Möltu.

Af framansögðu er ljóst að leikmenn 8 hinna 10 nýju aðildarríkja teljast utan EES svæðis sbr. lið C.1. í reglugerð KSÍ um félagaskipti leikmanna (þar sem ákvæði um frjálsa för launafólks nær ekki til þeirra). Því munu leikmenn (ríkisborgarar) frá Eistlandi, Lettlandi, Litháen, Póllandi, Slóvakíu, Slóveníu, Tékklandi og Ungverjalandi falla undir takmörkun sem kveður á um mest 3 leikmenn utan EES.

 

Í reglugerð KSÍ um félagaskipti leikmanna segir:

C. ERLENDIR LEIKMENN

1. Gerist erlendur ríkisborgari leikmaður með íslensku liði telst hann hlutgengur hafi hann verið búsettur hér á landi í einn dag, sbr. þó grein A 4 hér að framan. Þó geta ekki fleiri en þrír leikmenn frá öðrum löndum en Evrópska Efnahagssvæðinu, Færeyjum og Grænlandi verið hlutgengir með 1. aldursflokki sama félags hverju sinni, samanber leikskýrslur í landsmótum. Óski félag eftir að afturkalla hlutgengi erlends leikmanns skal það gert með skriflegri tilkynningu til skrifstofu KSÍ, sem tekur gildi einni viku eftir að hún berst þangað.

Ákvæði um ótakmarkaðan fjölda nær því til ríkisborgara eftirtalinna landa frá 1. maí næstkomandi:

Austurríki
Belgía
Bretland
Danmörk
Finnland
Frakkland
Grikkland
Holland
Írland
Ítalía
Kýpur
Liechtenstein
Luxemborg
Malta
Noregur
Portúgal
Spánn
Svíþjóð
Þýskaland
-
Færeyjar
Grænland

Ákvörðun íslenskra stjórnvalda er skýrð í eftirfarandi fréttatilkynningu frá félagsmálaráðuneytinu frá 24. janúar síðastliðnum:

Stækkun Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins tekur gildi 1. maí nk. Þau lönd sem þá verða aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eru: Eistland, Lettland, Litháen, Kýpur, Malta, Pólland, Slóvakía, Slóvenía, Tékkland og Ungverjaland. Heimilt er að beita sérstökum aðlögunarákvæðum að því er varðar frjálsa för launafólks frá framantöldum ríkjum, öðrum en Möltu og Kýpur í allt að sjö ár eftir stækkun. Sérhvert aðildarríki ákveður hvaða reglur gildi á þessu sviði fyrstu tvö árin eða fram til maí árið 2006. Að þeim tíma loknum skulu ríkin taka um það ákvörðun hvort þau óski eftir að nýta sér aðlögunartíma í allt að þrjú ár til viðbótar með því að fresta gildistöku reglna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið en að öðrum kosti öðlast reglur samningsins um Evrópska efnahagssvæðið gildi á þeim tímapunkti. Treysti ríki sér ekki til að taka upp hinar sameiginlegu reglur að fimm árum liðnum er þeim heimilt að óska eftir tveggja ára aðlögunartíma til viðbótar eða fram til maí 2011. Þetta er þó einungis heimilt í þeim tilvikum er sýnt verður fram á alvarlega röskun á vinnumarkaði hlutaðeigandi ríkis við það að taka upp reglurnar er gilda á hinum sameiginlega markaði um frjálsa för launafólks.

Ríkisstjórn Íslands hefur með vísan til framangreinds ákveðið að eftir 1. maí 2004 gildi ákvæði laga nr. 96/2002, um útlendinga, og laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, áfram í allt að tvö ár að því er varðar dvalar- og atvinnuleyfi til handa ríkisborgurum hinna nýju aðildarríkja eins og verið hefur. Þó munu ákvæði um frjálsa för launafólks gilda um ríkisborgara Möltu og Kýpur. Þessi ákvörðun var meðal annars tekin í ljósi ákvarðana annarra aðildarríkja að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið á undanförnum mánuðum þess efnis að strangari reglur gildi gagnvart ríkisborgurum þessara ríkja en gilda gagnvart EES-borgurum í dag. Útfærsla einstakra ríkja er þó með nokkuð mismunandi hætti. Eftirtalin ríki hafa tekið ákvörðun um að áfram gildi óbreyttar reglur að því er varðar dvalar- og atvinnuleyfi til handa ríkisborgurum þessara ríkja: Austurríki, Belgía, Finnland, Frakkland og Þýskaland. Enn eru ríki sem eiga eftir að taka endanlega afstöðu en það eru: Grikkland, Holland, Noregur, Portúgal, Spánn og Svíþjóð. Þá hafa enn önnur ríki ákveðið að reglur um frjálsa för launafólks gildi en með töluverðu eftirliti, svo sem Danmörk.