Heimasíða KSÍ opnuð í verslun 10-11 í Lágmúla
Knattspyrnusamband Íslands opnaði í dag heimasíðu sína undir slóðinni www.ksi.is í verslun 10-11 í Lágmúla. Það var Eggert Magnússon, formaður KSÍ, sem opnaði síðuna formlega á blaðamannafundi. Margir hafa beðið þess með eftirvæntingu að KSÍ opnaði sína eigin heimasíðu, en hingað til hefur einungis verið boðið upp á úrslitaþjónustu á Íslenska íþróttavefnum.
Á heimasíðunni er að finna víðtækar upplýsingar um alla meginþætti í starfsemi KSÍ s. s.
- stjórn, nefndir og starfsfólk KSÍ
- félaga- og dómaratal
- öll mót á vegum KSÍ og KRR
- alla landsleiki og landsliðsmenn frá upphafi
Það er Skýrr hf. sem hannað hefur síðuna en í dag undirritar KSÍ samstarfssamning við fyrirtækið til tveggja ára. Skýrr hf. verður einn af samstarfsaðilum KSÍ og mun smíða nýtt móta- og upplýsingakerfi fyrir sambandið sem tekið verður í notkun um næstu áramót. Þetta nýja kerfi mun gefa aðildarfélögum og áhugamönnum um knattspyrnu færi á að nálgast upplýsingar um leiki beint í nýjan gagnagrunn. Þá verður aðildarfélögum gert kleift að skrá úrslit leikja og aðrar upplýsingar í gagnagrunninn á internetinu. Það er stefna KSÍ að byggja upp úrslitavef sem veitir landsmönnum upplýsingar um úrslit allra leikja strax í leikslok saman hvort um verður að ræða leik í meistaraflokki eða 6. flokki, hvar sem er á landinu. Þess má geta að KSÍ mun einnig taka upp nýtt bókhaldskerfi frá Skýrr hf. þannig að fyrirtækið mun þjóna KSÍ á flestum sviðum hugbúnaðar.
Heimasíðan er opnuð í verslun 10-11 í Lágmúla en KSÍ og 10-11 undirrita við sama tækifæri samning sem kveður á um að 10-11 verði samstarfsaðili KSÍ. 10-11 hefur lagt áherslu á að styrkja íþróttastarfsemi og með þessum samningi við KSÍ vill fyrirtækið enn frekar hasla sér völl á þeim vettvangi. 10-11 mun styrkja KSÍ næstu tvö árin og sérstaklega A landslið karla en markmið liðsins og fyrirtækisins fara vel saman í harði keppni þar sem ávallt er stefnt að sigri.