Hagnýtar upplýsingar fyrir fjölmiðla

Hér að neðan er að finna ýmsar hagnýtar upplýsingar fyrir fjölmiðla, reglur og tengsl við reglugerðir.

Aðgönguskírteini fjölmiðla vegna leikja í deild og bikar

Handhafi F-aðgönguskírteinis (fjölmiðlar) útgefnu af KSÍ hefur ókeypis aðgang að öllum leikjum í knattspyrnumótum innanlands fyrir sig einan, enda sé viðkomandi að starfa við leikinn. Sótt er um F-aðgönguskírteini ár hvert.  Nánari fyrirspurnir sendist á media@ksi.is.

Ekki er nauðsynlegt að vera fullgildur meðlimur í hagsmunasamtökum eða stéttarfélögum fjölmiðlamanna til að sækja um F-skírteini, enda koma mun fleiri að umfjöllun fjölmiðla um leiki en þeir sem eru íþróttafréttamenn eða fjölmiðlamenn í fullu starfi.

Aðgengi að landsleikjum á Laugardalsvelli

Fjölmiðlum og þeim sem fjalla um landsleiki er boðið að sækja um aðgöngumiða að hverjum landsleik fyrir sig til Samskiptadeildar KSÍ á tölvupóstfangið media@ksi.is.  Nánari fyrirspurnir um aðgengi og aðstöðu fjölmiðla sendist á media@ksi.is.  Á leikjum A landsliðs karla gilda sérreglur vegna umsókna fyrir allt starfsfólk sjónvarpsrétthafa og fara þær umsóknir í gegnum UEFA.    

Ekki er nauðsynlegt að vera fullgildur meðlimur í hagsmunasamtökum eða stéttarfélögum fjölmiðlamanna til að sækja um fjölmiðlaaðgang að landsleikjum, enda koma mun fleiri að umfjöllun um leiki en þeir sem eru íþróttafréttamenn eða fjölmiðlamenn í fullu starfi.

Athugið vinsamlegast að ekki er víst að hægt verði að uppfylla allar óskir um fjölda aðgöngumiða á alla leiki og að þessir miðar eru eingöngu fyrir þá sem koma til með að starfa við leikinn.

Aðrar upplýsingar fyrir fjölmiðla vegna leikja á Laugardalsvelli

Ljósmyndarar

Ljósmyndarar fá afhent vesti í S-inngangi og þurfa að innrita sig á þar til gert eyðublað. Vestinu er skilað í vinnuaðstöðu ljósmyndara eftir að leik lýkur.  Ljósmyndarar hafa aðgang að vallarsvæði og skulu klæðast vestum þar. 

Fyrir leik geta ljósmyndarar tekið myndir af byrjunarliðum frá hlaupabraut.  Þegar leikur hefst skulu ljósmyndarar eingöngu vera fyrir aftan auglýsingaskilti við endalínur (sitjandi).  Að leik loknum geta ljósmyndarar athafnað sig á afmörkuðu svæði á hlaupabraut til að ná myndum af leikmönnum á leið af leikvelli, en þó ekki fyrr en dómari hefur flautað til leiksloka.  Ljósmyndarar ættu einungis að skipta um vallarhelming í hálfleik.  Leið leikmanna og þjálfara liðanna af leikvelli má ekki hindra. 

Veitingar

Fjölmiðlamönnum verða færðar veitingar í viðeigandi aðstöðu.

Grasflötin

Vinsamlegast athugið að stranglega er bannað að fara inn á grasflöt, á öllum tímum.  Eina undantekningin er myndavél sjónvarpsrétthafa fyrir leik (þjóðsöngvar og val fyrirliða á leikhelmingi) og eftir leik (leikmenn á leið út af velli).