Allir á völlinn!
Mig langar til þess að hvetja alla knattspyrnuunnendur og stuðningsmenn til þess að mæta á völlinn og hvetja liðið sitt í sumar.
Íslandsmótið er gríðarlega umfangsmikið í öllum flokkum og deildum. Metnaðurinn er mikill og leikmenn sem þjálfarar setja sér markmið fyrir sumarið. Umgjörð , umfjöllun og gæði knattspyrnunnar hefur aukist síðust ár sem ætti að stuðla að betri aðsókn og stuðningur þinn og okkar allra skiptir máli. Það er hluti af félagslífi margra að mæta á völlinn hvort sem er til þess að hitta gamla félaga úr boltanum eða góða vini úr hverfinu.
Síðan má auðvitað ekki gleyma yngri flokkunum og þeim þúsundum áhorfenda sem að mæta og horfa á leiki í yngri flokkunum. Þar er á ferð næsta kynslóð okkar knattspyrnufólks sem við getum verið stolt af. Framtíð fótboltans á Íslandi er svo sannarlega björt og öll getum við verið þátttakendur í henni með því að mæta á völlinn og styðja okkar lið.
Koma svo!
Knattspyrnukveðja,
Guðni Bergsson
Formaður KSÍ