• 11.02.2017 00:00
  • Pistlar

Setningarræða formanns á 71. ársþingi KSÍ

Geir Þorsteinsson
Geir-Thorsteinsson-April-2011-minni

Velkomin á knattspyrnuþing í Vestmannaeyjum. Við héldum ársþing hér fyrir 32 árum eða árið 1985. Margt hefur breyst síðan þá en knattspyrnan stendur styrkum fótum hér í Eyjum sem fyrr og hér eru keppnislið í fremstu röð á Íslandi. Gaman er að minnast þess að Eyjamenn sendu einmitt lið í fyrsta Íslandsmótið 1912. Sú harðfylgni sem einkenndi keppnislið Eyjamanna í löngu og ströngu ferðalagi til Reykjavíkur og grimmd á leikvelli einkennir enn þátttöku ÍBV í Íslandsmótinu. Til hamingju Eyjamenn með öflugt starf og frábæran árangur í áranna rás. Ég var fulltrúi á þinginu 1985 sem Guðmundur Þ B Ólafsson stýrði farsællega. Þingið tókst einstaklega vel, sterk bönd mynduðust milli þingfulltrúa og ekki skemmdi fyrir að ófært var þegar halda skyldi heim á sunnudegi.

Þátttaka Íslands á EM 2016 verður lengi í minnum höfð. Árangur landsliðsins var umfram væntingar og vakti athygli um heim allan. Íslensku stuðningsmennirnir sem fjölmenntu til Frakklands gerðu sitt til að gera keppnina ógleymanlega og víkingaklappið vakti enn frekar athygli á íslenska liðinu. Á Íslandi snerist mest allt um fótbolta og gleðin yfir árangri liðsins var ósvikin hjá þjóðinni. Sigur gegn Englandi í fyrsta opinbera keppnisleik þjóðanna í knattspyrnu var stór áfangi og gladdi marga. Móttökurnar þegar heim var komið voru stórkostlegar, fólk fjölmennti og hyllti strákana frá flugvelli til Arnarhóls. Liðið hafði sannað sig í hópi þeirra bestu, gefið mörgum öðrum þjóðum von um þátttöku í framtíðinni og leikið heiðarlega af kappi til sigurs. Allir sem lögðu sitt af mörkum eiga þakkir skildar og stuðning þjóðarinnar ber að þakka.

En baráttan um sæti í úrslitakeppni HM 2018 í Rússlandi er hafin og strákarnir hafa farið vel af stað í sínum riðli. Það er þó mikið eftir og leikirnir sex á árinu 2017 skipta allir máli. Aðeins sigur í riðlinum gefur öruggt sæti í úrslitakeppninni en möguleiki er á sæti í umspili í nóvember ef lið okkar hafnar í 2. sæti í sínum riðli. Við vorum aðeins einu skrefi frá HM í Brasilíu en núna er tækifæri að ná alla leið og strákarnir ætla sér eitt af þrettán sætum Evrópu í HM í Rússlandi. Við fögnum ákvörðun FIFA að fjölga sætum í úrslitakeppni HM frá og með 2026 úr 32 í 48. UEFA mun væntanlega gera kröfu um 16 af þeim sætum, þ. e. eitt lið í hverjum riðli þannig að Evrópuþjóðir mætist í fyrsta lagi í 32 liða úrslitum.

Það verða verulegar breytingar á keppnisfyrirkomulagi í Evrópu hjá A landsliðum karla haustið 2018 þegar keppni hefst í Þjóðadeildinni (UEFA Nations League). Leikið verður í fjórum deildum og eins og staðan er í dag mun Ísland leika í B deild en góður árangur í leikjunum sex sem eftir eru í undankeppni HM getur hugsanlega lyft liðinu í A deildina. Í A deildinni munu 12 bestu landslið Evrópu taka þátt, í B deildinni 12 landslið flokkuð þar fyrir neðan, síðan í C deildinni næstu 15 landslið og í D deildinni 16 neðstu landsliðin skv. styrkleikalista UEFA. Hverri deild verður skipt í 4 riðla. Þjóðadeildin mun skila KSÍ auknum tekjum og því meiri því ofar sem við leikum en árangur okkar í keppninni mun ráða því í hvað styrkleikaflokki okkar lið verður þegar dregið verður í framtíðinni í riðla í undankeppni EM og HM.

Síðan halda breytingarnar áfram og undankeppni EM 2020 verður leikin að öllu leyti 2019, 2 leikir í mars, 2 í júní, 2 í september, 2 í október og 2 í nóvember. Leikjum getur þó fækkað í 8 ef Ísland leikur í 5 liða riðli en það verða fimm slíkir og aðrir fimm riðlar með 6 liðum hver í undankeppninni. Tvö efstu liðin í hverjum riðli komast í úrslitakeppnina, alls 20 lið, og síðan bætast við fjögur lið sem koma úr Þjóðadeildinni. Leikið verður í 13 borgum víðs vegar um Evrópu í úrslitakeppni EM 2020 í tilefni af því að þá verða 60 ára liðin frá fyrstu úrslitakeppni EM landsliða.

Þær breytingar sem fyrr eru raktar hafa kallað á skoðun á vallarmálum landsliða Íslands. Fyrst er að telja að Laugardalsvöllur er í hópi þeirra leikvanga í Evrópu sem reka lestina þegar litið er á gæði þeirra leikvanga sem notaðir eru fyrir landsleiki í álfunni. Það hafa einfaldlega orðið gríðarlegar framfarir í Evrópu á síðasta áratug á þessu sviði. Í annan stað er veðurfar á Íslandi þannig að heimaleikir í mars og nóvember eru alls ekki ákjósanlegur kostur við núverandi aðstæður. Nýr eða endurbyggður leikvangur fyrir landslið Íslands er nauðsynlegur til að skapa skilyrði fyrir árangur í alþjóðlegri keppni og til vaxtar fyrir KSÍ. Án framfara á þessu sviði getur íslensk knattspyrna dregist aftur úr í harðri samkeppni.

Í þriðja sinn í röð heldur A landslið kvenna í úrslitakeppni EM sem að þessu sinni fer fram í Hollandi næsta sumar. Í fyrsta sinn verða liðin í úrslitakeppninni 16 talsins og er það merkur áfangi fyrir knattspyrnu kvenna í Evrópu sem endurspeglar vöxt íþróttarinnar. Stelpunar tryggðu sér sæti með sigri í sínum riðli, unnu sjö leiki en töpuðu aðeins einum. Ljóst er, að fjöldi stuðningsmanna mun fylgja liðinu til Hollands þar sem liðið mun leika í riðli með landsliðum Frakklands, Sviss og Austurríkis. Í apríl verður síðan dregið í riðla í undankeppni HM kvenna en leikirnir hefjast í september 2017. Leikið verður í 7 fimm liða riðlum í undankeppninni, sigurvegarar riðlanna komast í úrslit en þau fjögur lið í 2. sæti í riðlunum sem bestum árangri ná leika um eitt sæti, áttunda sæti Evrópu. Úrslitakeppnin HM verður haldin í Frakklandi 2019 og þangað stefnir íslenska landsliðið.

Það leit lengi vel út fyrir að Íslandi tækist að vinna sér sæti í úrslitakeppni EM U21 2017, en á síðustu stundu misstu strákarnir tökin í lokaleik riðilsins sl. haust og biðu ósigur á heimavelli eftir að hafa verið 1-0 yfir í hálfleik gegn Úkraínu. Liðið fluttist við það úr fyrsta sæti í það þriðja. Ótrúlega svekkjandi niðurstaða eftir frábæran árangur í undankeppninni. Dregið hefur verið í riðla í undankeppni EM 2019 en úrslitakeppnin fer fram á Ítalíu. Lið Íslands mun mæta landsliðum Spánar, Slóvakíu, Albaníu, Eistlands og N-Írlands. Sigurvegari riðilsins kemst í úrslitakeppnina og liðið í 2. sæti á möguleika á umspilssæti. Önnur yngri landslið tók þátt í hefðbundnum verkefnum á Norðurlöndum og í Evrópumótum. U17 landslið karla lék í milliriðli sl. vetur og náði ágætum úrslitum en komst ekki áfram. Nýtt U17 landslið karla varð í 2. sæti Norðurlandamótsins en tókst ekki að fylgja þeim árangri eftir í undankeppni EM. U17 landslið kvenna lék í milliriðli sl. vetur og vann einn leik. Nýtt U17 landslið kvenna komst svo upp úr sínum riðli sl. haust í undankeppni EM og það gerði U19 landslið kvenna einnig. Stjórn KSÍ ákvað sl. haust að efla enn samstarf þjálfara yngri landsliða Íslands og tóku ráðningar nýrra þjálfara mið af þeirri ákvörðun en þeir verða flestir í fullu starfi við þjálfun og fræðslu á vegum KSÍ.

KSÍ skipulagið á sl. starfsári 5.361 leik í hinum ýmsu knattspyrnumótum og tóku 899 lið þátt í þeim. Þátttaka Íslands í úrslitakeppni EM í Frakklandi setti svip sinn á mótahaldið og var að mestu leyti gert hlé á því á meðan riðlakeppnin fór fram. Mótin eru kjarninn í starfsemi KSÍ á hverju ári og miklu skiptir að skipulag þeirra sé eins og best verður á kosið í samstarfi við aðildarfélögin sem framkvæma leikina. Fjölgun iðkenda síðastliðin ár innan vébanda KSÍ ber vitni um gott starf þar sem reynt er að skapa verkefni við hæfi fyrir sem flesta. Það er krefjandi verkefni að manna dómgæslu í öllum þessum leikjum og um leið að huga að því hvernig gæði hennar verði aukin. Aukin menntun og fræðsla þjálfara hefur hjálpað til að auka gæði leikmanna og betri leikvellir og mannvirki hafa hjálpað mikið þegar litið er til skemmtanagildis allra þessara kappleikja.

FH varð Íslandsmeistari í meistaraflokki karla annað árið í röð og Stjarnan í meistaraflokki kvenna. Valur varð bikarmeistari í meistaraflokki karla annað árið í röð og Breiðablik í meistaraflokki kvenna. Samstarf um Pepsi-deildir karla og kvenna hélt áfram við Ölgerðina og í fyrsta sinn fékk 1. deild karla samstarfsaðila og nefndist Inkasso-deildin. Borgun hf. hélt einnig áfram samstarfi um Borgunarbikarinn. Nýir samningar við 365 miðla tryggðu fleiri beinar sjónvarpsútsendingar og meiri umfjöllun frá keppni í mótum á vegum KSÍ en nokkru sinni fyrr.  Stjórn KSÍ óskar öllum sigurvegurum sl. árs til hamingju með góðan árangur. Bókin Íslensk knattspyrna kom út í 36. sinn á sl. ári og sem fyrr er fjallað ýtarlega um íslenska knattspyrnu í henni í máli og myndum – hún er í reynd árbók íslenskrar knattspyrnu skrifuð af Víði Sigurðssyni.

Íslandsmeistari í mfl. karla 2017 mun taka þátt í undankeppni meistaradeildar UEFA og hefja leik um mitt sumar 2018 með nýju fyrirkomulagi. Falli liðið úr leik í umferðum undankeppninnar flyst það yfir í næstu umferð undankeppni Evrópudeildarinnar og leikur þar við meistaralið frá öðru landi sem einnig er fallið úr leik – liðið er því öruggt með 4 Evrópuleiki. Þetta er nokkur breyting en fleiri breytingar verða frá og með keppnistímablinu 2018/19 í Evrópu sem m. a. snúa að fjölda liða með öruggt sæti í meistaradeild UEFA. Undankeppni meistaradeildarinnar mun aðeins skila 6 liðum í riðlakeppni deildinnar, þ. e. 26 lið fá öruggt sæti eftir styrkleikaröðun. Í undankeppni Evrópudeildarinnar fara 3 íslensk félagslið 2018 eins og fyrr. Þau munu keppa við 141 félagslið sem ekki eru meistarar í sínum löndum um aðeins 13 sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.  Þessar breytingar eiga að auka tekjur af þessum mótum úr 2,3 milljörðum evra í 3,2 milljarða á ári. Þetta mun skila stærstu félagsliðum álfunnar auknum tekjum, íslenskum félögunum sem taka þátt einhverri hækkun sem þó hefur ekki komið skýrt fram hver verður og síðan er ekki gert ráð fyrir hækkun til minnstu félaganna, þ. e. félaga eins og á Íslandi sem leika í efstu deild. Þetta snýr að barna- og unglingastyrk UEFA. Ég hef í tvígang gert athugasemdir við það á fundum UEFA frá því í haust og hafa forystumenn UEFA sagst ætla að skoða málið. Þetta er að mínu viti réttlætismál.

Hefðbundnu fræðslustarfi fyrir þjálfara, dómara, eftirlitsmenn og fleiri var sinnt af kappi. Hæfileikamótun, knattspyrnuskóli, markvarðarskóli, þjálfaraskóli, átak fyrir efnilega unga dómara og grasrótarverkefni, allt var þetta á dagskrá í fjölþættri starfsemi KSÍ. Endurnýjun leikvalla og ný knattspyrnumannvirki af ýmsum tagi voru á borði margra aðildarfélaga og ljóst að tími framkvæmda er kominn eftir stöðnum í kjölfar fjármálahrunsins.

Í ár verða liðin 70 ár frá stofnun Knattspyrnusambands Íslands. Að því tilefni hefur stjórn KSÍ fengið Sigmund Ó. Steinarsson til að rita sögu kvennaknattspyrnunnar á Íslandi og mun bókin koma út í haust. Þar með lýkur heildarritun allrar sögu íslenskrar knattspyrnu en áður hefur KSÍ gefið út 4 bækur því tengdu á undanförnum árum. Sögunni er viðhaldið og heimildirnar um íslenska knattspyrnu varðveittar. Á afmælisárinu mun KSÍ halda Norðurlandamót drengjalandsliða og fara riðlarnir tveir fari fram á Suðurlandi og Suðurnesjum. Auk þess mun KSÍ halda árlegan fund formanna og framkvæmdastjóra knattspyrnusambanda Norðurlanda í Reykjavík.

Rekstur KSÍ endurspeglar mikla starfsemi og þátttökuna í úrslitakeppni EM 2016 í Frakklandi. Rekstrarhagnaður var af hefðbundinni starfsemi upp á rúmar 860 m.kr. Eftir ráðstöfun til aðildarfélaga og með tilliti til fjármagnsliða var niðurstaðan hagnaður upp á 317,2 m.kr. Fjárhagsstaða KSÍ er traust við þessi tímamót.

Síðasta ár var sennilega það besta í sögu KSÍ innan sem utan vallar. Ógleymanlegar minningar eru margar um sigra og skemmtilegar stundir á vellinum og stuðningur áhorfenda var stórkostlegur. Krafturinn og dugnaðurinn í forystufólki íslenskra knattspyrnu er einstakur. Þið eigið hrós skilið fyrir ykkar miklu og óeigingjörnu störf.

Starf við knattspyrnu fyrir áhugamann um leikinn hafa verið forréttindi. Starfið í KSÍ hefur ávallt verið krefjandi og oftast ánægjulegt. Ég hef látið verkin tala í störfum mínu frá fyrsta degi, en ávallt haft hugfast gildi jöfnuðar og mikilvægi þess að KSÍ standi vörð um íþróttina um land allt.   Árangur hefur náðst með óþrjótandi vinnu með sýn á framfarir og trú á árangur. Við keppum við þjóðir Evrópu í knattspyrnu og einstaka sinnum við þjóðir utan álfunnar. Til þess að ná árangri í þeirri keppni þurfum við góðar hugmyndir, góðan rekstur og gott fólk í lykilhlutverkum – og auðvitað leikmenn og þjálfara í fremstu röð.

En nú er komið að kveðjustund hjá mér. Ég hef unnið fyrir KSÍ í tæpan aldarfjórðung, hóf störf sem skrifstofustjóri í desember 1992 og hef setið alla stjórnarfundi síðan. Ég tók við sem framkvæmastjóri KSÍ 1997 og sem formaður KSÍ 2007. Ég vil þakka fyrir það traust sem mér hefur verið sýnt í  mínum störfum. Ég þakka bæði Ellerti B Schram og Eggerti Magnússyni forverum mínum í starfi formanns. Ég sat með Ellerti í stjórn eitt ár og starfaði svo með Eggerti í 15 ár. Ég þakka öllum þeim sem hafa starfað með mér í stjórn og nefndum KSÍ fyrir afar farsælt samstarf. Þið eigið heiður skilinn fyrir ómetanleg störf fyrir íslenska knattspyrnu. Starfsfólki KSÍ þakka ég fyrir einstakt samstarf. Allmargir núverandi starfsmenn KSÍ hafa starfað með mér í yfir 20 ár. Kærar þakkir fyrir ykkar frábæru störf og kærar þakkir fyrir mig. Þið hafið sýnt mér og KSÍ einstaka tryggð. Forystumönnum aðildarfélaga KSÍ þakka ég fyrir gott samstarf og traust í langan tíma, sumir hafa verið til staðar í öll þessi 25 ár og eru enn að. Ég hef lagt mig allan fram um að auka veg íslenskrar knattspyrnu, gert það af heilindum og heiðarleika, af ábyrgð og með hagsmuni heildarinnar í huga. Ég kveð formannsstarfið í KSÍ sáttur.

Ársþing KSÍ er vettvangur til umræðu og breytinga. Við hittumst hér til að ræða saman formlega, en ekki síður til þess að spjalla saman með óformlegum hætti. Staða íslenskrar knattspyrnu er sterkari en nokkru sinni þegar ég segi 71. ársþing Knattspyrnusambands Íslands sett.