• 03.02.2017 00:00
  • Pistlar

Lengi í minnum höfð

Geir Þorsteinsson
Geir-Thorsteinsson-April-2011-minni

Þátttaka Íslands á EM 2016 verður lengi í minnum höfð. Árangur landsliðsins var umfram væntingar og vakti athygli um heim allan. Íslensku stuðningsmennirnir sem fjölmenntu til Frakklands gerðu sitt til að gera keppnina ógleymanlega og víkingaklappið vakti enn frekar athygli á íslenska liðinu. Á Íslandi snerist mest allt um fótbolta og gleðin yfir árangri liðsins var ósvikin hjá þjóðinni. Sigur gegn Englandi í fyrsta opinbera keppnisleik þjóðanna í knattspyrnu var stór áfangi og gladdi marga. Móttökurnar þegar heim var komið voru stórkostlegar, fólk fjölmennti og hyllti strákana frá flugvelli til Arnarhóls. Liðið hafði sannað sig í hópi þeirra bestu, gefið mörgum öðrum þjóðum von um þátttöku í framtíðinni og leikið heiðarlega af kappi til sigurs. Allir sem lögðu sitt af mörkum eiga þakkir skildar og stuðning þjóðarinnar ber að þakka.

En baráttan um sæti í úrslitakeppni HM er hafin og strákarnir hafa farið vel af stað í sínum riðli. Það er þó mikið eftir og leikirnir sex á árinu 2017 skipta allir máli. Aðeins sigur í riðlinum gefur öruggt sæti í úrslitakeppninni en möguleiki er á sæti í umspili í nóvember ef lið okkar hafnar í 2. sæti í sínum riðli. Úrslitakeppnin fer fram í Rússlandi sumarið 2018. Síðan verða verulegar breytingar á keppnisfyrirkomulagi í Evrópu hjá A landsliðum karla og haustið 2018 hefst keppni í Þjóðadeildinni (UEFA Nations League). Leikið verður í fjórum deildum og eins og staðan er í dag mun Ísland leika í B deild en góður árangur í leikjunum sex sem eftir eru í undankeppni HM getur hugsanlega lyft liðinu í A deildina. Í A deildinni munu 12 bestu landslið Evrópu taka þátt, í B deildinni 12 landslið flokkuð þar fyrir neðan, síðan í C deildinni næstu 15 landslið og í D deildinni 16 neðstu landsliðin skv. styrkleikalista UEFA. Hverri deild verður skipt í 4 riðla. Síðan halda breytingarnar áfram og undankeppni EM 2020 verður leikin að öllu leyti 2019, 2 leikir í mars, 2 í júní, 2 í september, 2 í október og 2 í nóvember. Leikjum getur þó fækkað í 8 ef Ísland leikur í 5 liða riðli en það verða fimm slíkir og aðrir fimm riðlar með 6 liðum hver í undankeppninni. Tvö efstu liðin í hverjum riðli komast í úrslitakeppnina ásamt fjórum liðum sem koma úr Þjóðadeildinni. Leikið verður í 13 borgum víðs vegar um Evrópu í tilefni af því að þá verða 60 ára liðin frá fyrstu úrslitakeppni EM landsliða.

Þær breytingar sem að ofan eru raktar hafa kallað á skoðun á vallarmálum landsliða Íslands. Fyrst er að telja að Laugardalsvöllur er í hópi þeirra leikvanga í Evrópu sem reka lestina þegar litið er á leikvelli sem notaðir eru fyrir landsleiki í álfunni. Gríðarlegar framfarir hafa orðið í Evrópu á síðasta áratug. Í annan stað er veðurfar á Íslandi þannig að heimaleikir í mars og nóvember eru alls ekki ákjósanlegur kostur við núverandi aðstæður. Nýr eða endurbyggður leikvangur fyrir landslið Íslands er nauðsynlegur til að skapa skilyrði fyrir árangur í alþjóðlegri keppni og til vaxtar fyrir KSÍ. Án framfara á þessu sviði getur íslensk knattspyrna dregist aftur úr í harðri samkeppni.

Í þriðja sinn í röð heldur A landslið kvenna í úrslitakeppni EM sem að þessu sinni fer fram í Hollandi næsta sumar. Í fyrsta sinn verða liðin í úrslitakeppninni 16 talsins og er það merkur áfangi fyrir knattspyrnu kvenna í Evrópu sem endurspeglar vöxt íþróttarinnar. Stelpunar tryggðu sér sæti með sigri í sínum riðli, unnu sjö leiki en töpuðu aðeins einum. Ljóst er, að fjöldi stuðningsmanna mun fylgja liðinu til Hollands þar sem liðið mun leika í riðli með landsliðum Frakklands, Sviss og Austurríkis. Í apríl verður síðan dregið í riðla í undankeppni HM kvenna en leikirnir hefjast í september 2017. Leikið verður í 7 fimm liða riðlum í undankeppninni, sigurvegarar riðlanna komast í úrslit en þau fjögur lið í 2. sæti í riðlunum og bestum árangri ná leika um eitt sæti, áttunda sæti Evrópu. Úrslitakeppnin HM verður haldin í Frakklandi 2019.

Það leit lengi vel út fyrir að Íslandi tækist að vinna sér sæti í úrslitakeppni EM U21 2017, en á síðustu stundu misstu strákarnir tökin í lokaleik riðilsins sl. haust og biðu ósigur á heimavelli eftir að hafa verið 1-0 yfir í hálfleik gegn Úkraínu. Liðið fluttist við það úr fyrsta sæti í það þriðja. Ótrúlega svekkjandi niðurstaða eftir frábæran árangur í undankeppninni. Dregið hefur verið í riðla í undankeppni EM 2019 en úrslitakeppnin fer fram á Ítalíu. Lið Íslands mun mæta landsliðum Spánar, Slóvakíu, Albaníu, Eistlands og N-Írlands. Sigurvegari riðilsins kemst í úrslitakeppnina og liðið í 2. sæti á möguleika á umspilssæti. Önnur yngri landslið tók þátt í hefðbundnum verkefnum á Norðurlöndum og í Evrópumótum. U17 landslið karla lék í milliriðli sl. vetur og náði ágætum úrslitum en komst ekki áfram. Nýtt U17 landslið karla varð í 2. sæti Norðurlandamótsins en tókst ekki að fylgja þeim árangri eftir í undankeppni EM. U17 landslið kvenna lék í milliriðli sl. vetur og vann einn leik. Nýtt U17 landslið kvenna komst svo upp úr sínum riðli sl. haust í undankeppni EM og það gerði U19 landslið kvenna einnig. Stjórn KSÍ ákvað sl. haust að efla enn samstarf þjálfara yngri landsliða Íslands og tóku ráðningar nýrra þjálfara mið af þeirri ákvörðun en þeir verða flestir í fullu starfi við þjálfun og fræðslu á vegum KSÍ.

KSÍ skipulagið á sl. starfsári 5.361 leik í hinum ýmsu knattspyrnumótum og tóku 899 lið þátt í þeim. Þátttaka Íslands í úrslitakeppni EM í Frakklandi setti svip sinn á mótahaldið og var að mestu leyti gert hlé á því á meðan riðlakeppnin fór fram. Mótin eru kjarninn í starfsemi KSÍ á hverju ári og miklu skiptir að skipulag þeirra sé eins og best verður á kosið í samstarfi við aðildarfélögin sem framkvæma leikina. Fjölgun iðkenda sl. ár innan vébanda KSÍ ber vitni um gott starf þar sem reynt er að skapa verkefni við hæfi fyrir sem flesta. Það er krefjandi verkefni að manna dómgæslu í öllum þessum leikjum og um leið að huga að því hvernig gæði hennar verði aukin. Aukin menntun og fræðsla þjálfara hefur hjálpað til að auka gæði leikmanna og betri leikvellir og mannvirki hafa hjálpað mikið þegar litið er til skemmtanagildis allra þessara kappleikja. FH varð Íslandsmeistari í meistaraflokki karla annað árið í röð og Stjarnan í meistaraflokki kvenna. Valur varð bikarmeistari í meistaraflokki karla annað árið í röð og Breiðablik í meistaraflokki kvenna. Samstarf um Pepsi-deildir karla og kvenna hélt áfram við Ölgerðina og í fyrsta sinn fékk 1. deild karla samstarfsaðila og nefndist Inkasso-deildin. Borgun hf. hélt einnig áfram samstarfi um Borgunarbikarinn. Nýir samningar við 365 miðla tryggðu fleiri beinar sjónvarpsútsendingar og meiri umfjöllun frá keppni í mótum á vegum KSÍ en nokkru sinni fyrr.  

Hefðbundnu fræðslustarfi fyrir þjálfara, dómara, eftirlitsmenn og fleiri var sinnt af kappi, hæfileikamótun, knattspyrnuskóli, markvarðarskóli, þjálfaraskóli, átak fyrir efnilega unga dómara, grasrótarverkefni, allt var þetta á dagskrá í fjölþættri starfsemi KSÍ. Endurnýjun leikvalla og ný knattspyrnumannvirki af ýmsum tagi voru á borði margra aðildarfélaga og ljóst að tími framkvæmda er kominn eftir stöðnum í kjölfar fjármálahrunsins. Rekstur KSÍ endurspeglar þessa miklu starfsemi og þátttöku í úrslitakeppni EM. 

Rekstrarhagnaður var af hefðbundinni starfsemi upp á rúmar 860 m.kr. Eftir ráðstöfun til aðildarfélaga og með tilliti til fjármagnsliða var niðurstaðan hagnaður upp á 317,2 m.kr. Fjárhagsstaða KSÍ er traust við þessi tímamót.

Stjórn KSÍ þakkar aðildarfélögunum fyrir gott knattspyrnustarf á viðburðarríku starfsári. Það er fyrir þeirra mikla starf og skipulag sem íslensk knattspyrna uppsker svo ríkulega sem raun ber vitni. Samstarf við forystumenn félaganna var mikið og gott og ber að þakka þeim þeirra mikilvægu störf. Stjórn KSÍ þakkar einnig öllum þeim sem lagt hafa knattspyrnunni lið á árinu, s.s. dómurum, eftirlitsmönnum, nefndarmönnum, sjálfboðaliðum, stuðningsmönnum, samstarfsaðilum, fjölmiðlum og starfsmönnum hreyfingarinnar, og að síðustu en ekki síst öllum þeim fjölda iðkenda sem leika knattspyrnu sér og öðrum til skemmtunar.

Knattspyrnukveðja,

Geir Þorsteinsson,

formaður KSÍ