• 26.08.2016 00:00
  • Pistlar

35 ár frá fyrsta landsleiknum

Fagn

Það eru fastir liðir eins og venjulega, haustið færist nær og þá fer knattspyrnuáhugafólk að líta til loka keppnistímabilsins og fara yfir það sem liðið er.  Það er af nógu að taka þó svo að flestir muni eflaust staldra við þátttöku Íslands í úrslitakeppni EM í Frakklandi í sumar.  En það er margt annað sem hægt er að horfa til og ekki síst eru það spennandi hlutir sem eru framundan.

Það fer að draga til tíðinda í deildarkeppni  hér á landi.  Pepsi-deildum karla og kvenna lýkur þó ekki fyrr en um mánaðamótin september/október og því mikið eftir að gerast þar.  Öðrum deildum lýkur í september og núna eru að fara af stað úrslitakeppnir yngri flokka sem leiknar verða víða um land að venju.

En það sem fylgir alltaf komandi hausti eru annasamir tímar hjá öllum landsliðum okkar.  Það eru hvorki fleiri né færri en 23 landsleikir sem íslensk landslið leika frá byrjun september til byrjun nóvembers og verða öll okkar landslið í eldlínunni.  A landslið karla hefur leik í undankeppni fyrir HM 2018 í Rússlandi þegar liðið mætir Úkraínu ytra, 5. september.  Þá er U21 karlalandsliðið í harðri toppbaráttu um sæti í úrslitakeppni EM en framundan eru tveir gríðarlega mikilvægir leikir í september.  Fyrst verða Norður Írar sóttir heim og sigur þar mundi gefa tóninn fyrir hálfgerðan úrslitaleik gegn Frökkum í Caen, fjórum dögum síðar.

Landslið U17 og U19 karla og kvenna munu svo leika í undankeppni EM á næstu vikum og verða þau á faraldsfæti en riðlarnir eru leiknir í Úkraínu, Ísrael, Finnlandi og Írlandi.

Þá er kvennalandsliðið hársbreidd frá því að tryggja sér sæti í úrslitakeppni EM í Hollandi næsta sumar.  Það yrði þriðja úrslitakeppni EM í röð sem liðið mundi leika á en íslensku stelpurnar eru í góðri stöðu fyrir tvo síðustu leikina.  Leikið verður gegn Slóveníu, 16. september og gegn Skotum 20. september og fara báðir leikirnir fram á Laugardalsvelli.  Stelpurnar hafa leikið frábærlega til þessa í keppninni, eru með fullt hús stiga og hafa enn ekki fengið á sig mark.  Liðið er til alls líklegt í framtíðinni og verður gríðarlega spennandi að fylgjast með þeim í Hollandi næsta sumar, en til þess þarf að hjálpa þeim yfir síðasta hjallann.  Það mun takast með öflugum stuðningi en miðasala á þessa tvo leiki er nú hafin og hægt að tryggja sér miða á báða leikina á sérstöku tilboðsverði.

Leikurinn gegn Skotum er merkilegur, ekki bara fyrir þær sakir að Ísland getur þar tryggt sér sæti í úrslitakeppni EM, heldur líka að þann 20. september eru nákvæmlega 35 ár síðan að íslenska kvennalandsliðið lék sinn fyrsta landsleik.  Það var einmitt gegn Skotum en leikið var ytra, 20. september 1981 og höfðu Skotar betur, 3 – 2.  Þegar við tökum svo á móti Skotum, 35 árum síðar, erum við að leika landsleik nr. 214 og vonandi fyrir fullum Laugardalsvelli.

Það er því ljóst, þó svo farið sé aðeins að hausta í dagatalinu, þá er knattspyrnuvertíðin í hámarki.

Sjáumst á vellinum!

Geir Þorsteinsson

Formaður KSÍ