• 25.04.2016 00:00
  • Pistlar

Velkomin til leiks

Valur---KR-Pepsi-KVK-2015---0423

Íslandsmótið í knattspyrnu hefst um næstu helgi, 1. maí, í 105. sinn frá því fyrsta mótið fór fram 1912. Reyndar hefst Borgunarbikarinn fyrr með fjölda leikja. Úrslitaleikir í Lengjubikarnum fara fram þessa dagana ásamt Meistarakeppni KSÍ og marka þeir leikir lokin á löngu undirbúningstímabili.

Næstu 5 mánuði fara fram mörg þúsund leikir í flestum ef ekki öllum sveitarfélögum landsins á vegum KSÍ þar sem rúmlega 20 þúsund iðkendur reyna með sér í Íslandsmóti og bikarkeppni KSÍ. Slíkt krefst skipulags og undirbúnings sem staðið hefur í allan vetur. Þetta er grunnurinn í starfsemi KSÍ og besti vitnisburðurinn um öflugt uppbyggingarstarf aðildarfélaga KSÍ. Það skiptir miklu máli að keppendur hafi rétt við í leikjunum og virði ákvarðanir dómara. Eins og keppendur hafa dómarar undirbúið sig af kappi fyrir keppnistímabilið bæði með fræðslufundum og hvers kyns líkamsþjálfun. Það er mikilvægt að knattspyrnuhreyfingin vinni einnig af alefli gegn einelti innan sinna raða og hvers kyns fordómum.

Í sumar mun útsendingum í sjónvarpi frá íslenskri knattspyrnu fjölga með nýjum samningum við 365, Ölgerðina, Borgun og Inkasso. Þannig mun efsta deild karla og kvenna áfram bera heiti Pepsi, bikarinn heiti Borgunar og nú í fyrsta sinn mun 1. deild karla heita Inkasso-deildin. Stuðningur þessara aðila við íslenska knattspyrnu gerir okkur kleift að efla enn okkar starf.

Þátttaka A landsliðs karla í úrslitakeppni EM 2016 mun setja svip sinn á knattspyrnusumarið og vonandi eykur það enn á áhuga landsmanna á knattspyrnuíþróttinni þannig að þess sjáist merki á pöllunum og í fjölgun iðkenda á komandi árum.  

Ég býð leikmenn, þjálfara og aðra starfsmenn keppnisliða, dómara, stuðningsmenn liða og fulltrúa fjölmiðla velkomna til leiks. Þakkir eiga skildar allur hinn mikli fjöldi sjálfboðaliða sem leggur mikið af mörkum til þess að halda knattspyrnustarfinu gangandi og annast m.a. framkvæmd leikja. Ég vil nota tækifærið í upphafi tímabils og þakka forystumönnum íslenskra knattspyrnufélaga mikið og óeigingjarnt starf.

Vonandi fjölmenna áhorfendur á vellina í sumar til að njóta góðrar knattspyrnu í fjölskylduvænni stemmingu. Velkomin til leiks og góða skemmtun.

Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ