• 23.06.2015 00:00
  • Pistlar

Velkomin til Íslands

Geir Þorsteinsson
Geir-Thorsteinsson-April-2011-staerri

Kæru vinir.

Fyrir hönd Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ) er það mér sönn ánægja að bjóða alla gesti hjartanlega velkomna til okkar lands til að taka þátt í úrslitakeppni EM U17 landsliða kvenna.

Ákvörðun UEFA um að þessi keppni skyldi fara fram á Íslandi er mikill heiður í okkar augum og litlu knattspyrnusambandi eins og okkar er sýnt mikið traust.  Þetta er í annað sinn sem úrslitakeppni EM yngri landsliða kvenna er haldin hér á landi, því úrslitakeppni EM U19 liða kvenna fór hér fram árið 2007.

Leikið verður í Reykjavík, Kópavogi, Grindavík og á Akranesi og er í öllum tilfellum um að ræða leikvanga í hæsta gæðaflokki á Íslandi, leikvanga þar sem leikið er í efsta þrepi íslenskrar knattspyrnu.  Leikvangarnir eru Akranesvöllur, Grindavíkurvöllur, Kópavogsvöllur, Fylkisvöllur, Valsvöllur og Víkingsvöllur.

Knattspyrna kvenna hefur verið í sókn í Evrópu á síðustu árum og á Íslandi hefur uppgangurinn verið mikill, ekki síst eftir frábært gengi A landsliðs Íslands, sem komst í fyrsta sinn í lokakeppni EM árið 2009, þegar leikið var í Finnlandi, og endurtók svo leikinn í Svíþjóð 2013, þar sem liðið náði í 8-liða úrslita.  Yngri landslið kvenna standa einnig framarlega og hafa náð frábærum árangri.  Þessi árangur er afar glæsilegur vitnisburður um það góða starf sem unnið er hjá aðildarfélögum KSÍ, bæði í grasrótarstarfi og afreksstarfi.

Við erum stolt og full tilhlökkunar að takast á við þetta stóra verkefni og í mínum huga er enginn vafi á því að keppnin verður eftirminnileg, ekki einungis fyrir okkur sem komum að framkvæmdinni, heldur fyrir alla þá einstaklinga sem upplifa keppnina með einhverjum hætti, hvort sem um ræðir keppendur og aðstandendur liða, eða stuðningsmenn og knattspyrnuáhugafólk sem kemur á leikina og fylgist með.

Eðlilega vonast ég eftir því að íslenska liðið nái sem lengst í keppninni, en fyrst og fremst vonast ég þó eftir því að þessi keppni lifi sem lengst í minningu okkar allra, því þetta verður knattspyrnuveisla sem áhugafólk um íþróttina okkar ætti ekki að láta framhjá sér fara.  Hér munu efnilegustu knattspyrnukonur Evrópu leika listir sínar, stjörnur framtíðarinnar.

Ég óska öllum gestum okkar ánægjulegrar vistar í okkar fallega landi. Það er okkur sannur heiður að fá að taka á móti ykkur.  Liðunum sem keppa í mótinu óska ég góðs gengis.  Megi besta liðið vinna!

Geir Þorsteinsson

Formaður KSÍ