• 28.04.2015 00:00
  • Pistlar

Velkomin til leiks

Geir Þorsteinsson
Geir-Thorsteinsson-April-2011-minni

Boltinn fer að rúlla á völlum landsins um næstu helgi þegar Íslandsmótið í knattspyrnu hefst í 104. skipti. Reyndar hefst bikarkeppni KSÍ 1. maí nk. Langur undirbúningur er að baki og þar hefur deildarbikarkeppni KSÍ skipað veigamikinn sess. Veturinn var langur og harður en vonandi fer veðurfar að batna þannig að leikirnir geti farið fram við góðar aðstæður.

Næstu 5 mánuði fara fram mörg þúsund leikir í flestum ef ekki öllum sveitarfélögum landsins á vegum KSÍ þar sem um 20 þúsund iðkendur reyna með sér í Íslandsmóti og bikarkeppni KSÍ. Slíkt krefst skipulags og undirbúnings sem staðið hefur í allan vetur. Þetta er grunnurinn í starfsemi KSÍ og besti vitnisburðurinn um öflugt uppbyggingarstarf aðildarfélaga KSÍ.

Það skiptir miklu máli að keppendur hafi rétt við í leikjunum og virði ákvarðanir dómara. Eins og keppendur hafa dómarar undirbúið sig af kappi fyrir keppnistímabilið bæði með fræðslufundum og hvers kyns líkamsþjálfun. Það er einnig rétt að minna aðildarfélög KSÍ á, að vera á varðbergi gagnvart hagræðingu úrslita. Alltof víða hafa knattspyrnusambönd þurft að glíma við slíka svikastarfsemi. Það er nokkuð sem við viljum ekki sjá innan okkar raða. Það er mikilvægt að knattspyrnuhreyfingin vinni einnig af alefli gegn einelti innan sinna raða og hvers kyns fordómum.

Áfram bera efstu deildir karla og kvenna nafn Pepsi. Bikarkeppnin KSÍ ber áfram nafn Borgunar . Samstarfið við Ölgerðina og Borgun hefur verið einkar gott og farsælt fyrir alla aðila.

Ég býð leikmenn, þjálfara og aðra starfsmenn keppnisliða, dómara, stuðningsmenn liða og fulltrúa fjölmiðla velkomna til leiks. Þakkir eiga skildar allur hinn mikli fjöldi sjálfboðaliða sem leggur mikið af mörkum til þess að halda knattspyrnustarfinu gangandi og annast m.a. framkvæmd leikja. Ég vil nota tækifærið í upphafi tímabils og þakka forystumönnum íslenskra knattspyrnufélaga mikið og óeigingjarnt starf.

Vonandi fjölmenna áhorfendur á vellina í sumar til að njóta góðrar knattspyrnu í fjölskylduvænni stemmingu. Velkomin til leiks og góða skemmtun.