• 04.03.2015 00:00
  • Pistlar
  • Leyfiskerfi

Mikil þróun með tilkomu leyfiskerfis KSÍ

Geir Þorsteinsson
Geir-Thorsteinsson-April-2011-minni

Leyfiskerfi KSÍ var sett á laggirnar haustið 2002 og undirgengust íslensk félög leyfiskerfi KSÍ í fyrsta sinn fyrir keppnistímabilið 2003.  Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar. Mikil þróun hefur átt sér stað í íslenskri knattspyrnu og ekki síður í umgjörð íslenskra knattspyrnufélaga.

Áritaðir ársreikningar

Árið 2002 var fátítt að knattspyrnudeildir íþróttafélaga væru með endurskoðaða ársreikninga (fulla áritun), en í dag er það mikið gæðamerki á rekstri knattspyrnufélags að reksturinn hafi hlotið fulla áritun endurskoðanda.  Ekkert félag í efstu deild karla getur hlotið þátttökuleyfi án þess að vera með fulla áritun endurskoðanda og til skamms tíma var það einnig svo í næst efstu deild karla, þar til ákveðið var að gera einungis kröfu um könnunaráritun í 1. deild karla.  Þessi krafa um endurskoðaða ársreikninga hefur án nokkurs vafa aukið tiltrú almennings, opinberra aðila og annarra á fjárhag þeirra félaga sem undirgangast leyfiskerfið.  Alls hafa 35 félög undirgengist leyfiskerfið einu sinni eða oftar og hafa þar með fengið fulla endurskoðun og/eða könnunaráritun á ársreikninga sína, a.m.k. á einhverjum tímapunkti.

Engin vanskil

Í leyfisreglugerðinni er skýrt kveðið á um að leyfisumsækjandi (félagið) geti ekki verið í vanskilum við m.a. leikmenn og þjálfara, og við önnur knattspyrnufélög vegna félagaskipta leikmanna.  Þær kröfur sem settar eru á félagið til að sýna fram á þetta eru ríkar og er krafist nákvæmra vinnubragða við vinnslu þeirra gagna sem leggja þarf fram til leyfisstjórnar til að sýna fram á engin vanskil.  Þessi krafa um engin vanskil hefur skapað gott aðhald og orðið til þess að ágreiningsmálum hefur fækkað verulega.

Þjálfaramenntun

Gríðarleg aukning hefur orðið á menntuðum þjálfurum á Íslandi og er það ekki síst að þakka þeim kröfum sem gerðar eru í leyfiskerfi KSÍ, þar sem félögin sem undirgangast kerfið verða að sæta viðurlögum séu kröfur um menntun þjálfara, frá meistaraflokki og niður úr, ekki uppfylltar.  í dag er staða þannig að félögin sem leika í efstu tveimur deildum karla eru að öllu jöfnu með KSÍ-A eða KSÍ-B þjálfara í öllum flokkum. 

Árið 2003 var enginn þjálfari með KSÍ-B eða KSÍ-A menntun.  Fyrstu KSÍ-B þjálfararnir voru útskrifaðir í janúar 2004 og í lok árs 2014 voru 587 þjálfarar með KSÍ-B menntun og 184 til viðbótar höfðu lokið KSÍ-A menntun.  Þessu til viðbótar má nefna að 10 íslenskir þjálfarar hafa lokið UEFA-Pro gráðu.

Félögin og ekki síður þjálfararnir sjálfir eiga mikinn heiður skilinn.  Félögin vilja tryggja að iðkendur sínir, ekki síst þeir yngstu, hljóti handleiðslu fagfólks með góða menntun þegar þeim eru kennd grunnatriði knattspyrnunnar.  Þjálfarar á Íslandi hafa jafnframt sýnt mikinn metnað og fróðleiksvilja í verki, eins og aðsókn að fræðsluviðburðum hefur sýnt, en árið 2014 sóttu alls 760 manns hina ýmsu fræðsluviðburði á vegum KSÍ.

Áhorfendaaðstaða

Sá þáttur sem hefur gengið í gegnum hvað mesta breytingu er án efa aðstaða áhorfenda á knattspyrnuvöllum.  Þó mannvirkjakröfum sé ekki lýst í leyfisreglugerðinni sjálfri er þar gerð krafa um að leyfisumsækjandi leiki á leikvangi sem uppfyllir kröfur viðkomandi deildar.  Mikil þróun hefur orðið á aðstöðu fyrir áhorfendur á árunum síðan leyfiskerfið var sett á laggirnar.  Árið 2000 gátu einungis 5-6 knattspyrnuleikvangar talist hafa sæti fyrir áhorfendur.  Áárinu 2014 var sú tala komin yfir 30 leikvanga.

 

Geir Þorsteinsson

Formaður KSÍ