• 19.02.2015 00:00
  • Pistlar

Þakkir

Þórir Hákonarson
Torir_Hakonarson_2007

Ágætu félagar í knattspyrnuhreyfingunni,

Undirritaður hóf störf hjá KSÍ á vordögum 2007 og hef ég átt gríðarlega ánægjulegt samstarf við alla er koma að hreyfingunni á þessum árum sem framkvæmdastjóri.  Mikið og gott starf hefur verið unnið á þessum tíma og er ekki síst að þakka kraftmiklum aðildarfélögum og viðleitni þeirra og starfsmanna þeirra til að gera íslenska knattspyrnu enn betri.  Það eru ákveðin tímamót í íslenskri knattspyrnu, landslið okkar standa vel og vekja athygli og eftirtekt um víða veröld, fjárhagur sambandsins stendur traustum fótum og vonandi enn betur á næstu misserum og árum, reksturinn er í föstum skorðum og við höfum sífellt verið að leita leiða til þess að gera starf okkar enn betra. 

Á þessum tímamótum og í kjölfar vel heppnaðs ársþings 2015 hef ég ákveðið að láta af störfum sem framkvæmdastjóri sambandsins frá og með 1. mars n.k. en ég hef íhugað að skipta um vettvang frá því seint á síðasta ári og tel að nú, í upphafi nýs starfsárs , sé rétt að stíga þetta skref.  Ég tel að íslensk knattspyrna standi enn betur en hún gerði þegar ég hóf störf en fjölmargir aðilar eins og áður segir, aðildarfélög, starfsmenn og stjórn sambandsins, þjálfara og aðrir hafa unnið hörðum höndum að því að koma okkur á þann stall sem raun ber vitni og ég kveð því nokkuð stoltur af því starfi sem unnið hefur verið á undanförnum árum.  Það er því tímabært hverfa til annarra starfa eftir ánægjuleg 8 ár í hreyfingunni.   Ég lít svo á að ég muni ekki segja alfarið skilið við knattspyrnuna,  áhuginn á íþróttinni er til staðar og engu minni en áður og ég mun örugglega hitta mörg ykkar á vellinum um ókomna tíð. 

Ég vil þakka öllum þeim sem ég hef kynnst í gegnum starf mitt góð viðkynni, samstarf mitt við stjórn og starfsfólk, forystumenn aðildarfélaga, leikmenn og þúsundir stuðningsmanna sem ég hef verið í miklum samskiptum við,  hefur verið með miklum ágætum og ég vonast auðvitað eftir góðum samskiptum hér eftir sem fyrr þrátt fyrir að ég hverfi nú af þessum vettvangi.  Vil jafnframt þakka gott samstarf við fjölmiðla sem eru afar þýðingarmiklir fyrir starf allra þeirra er koma að íþróttahreyfingunni og ber að virða þau störf. 

Sjáumst á vellinum, áfram Ísland

Þórir Hákonarson

framkvæmdastjóri KSÍ