• 18.11.2014 00:00
  • Pistlar

Til hamingju Ísland!

Þórir Hákonarson
Torir_Hakonarson_2007

Leikur A landsliðs karla gegn Tékklandi í Plzen nú nýverið var lokaleikur A landsliða okkar á þessu ári og rétt að gefa því aðeins gaum hvernig til hefur tekist.  Ítrekað hefur verið farið yfir árangur landsliða okkar á síðustu misserum og er ætlunin ekki að rifja hann upp, heldur beina sjónum að þeim hluta landsliðanna sem hefur færst verulega í aukana að undanförnu, þ.e. stuðningsmönnum.

Það hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum að stemmingin í kringum landsliðin, ekki síst A landslið karla, hefur aukist jafnt og þétt undanfarið og síðustu leikir á Laugardalsvelli hafa verið ógleymanlegir, vissulega vegna góðra úrslita en ekki síður vegna þess hversu mikill og kröftugur stuðningur hefur verið frá áhorfendum.  Fremst í flokki hefur þar farið Stuðningssveitin Tólfan sem er orðin mjög virk og skipulögð stuðningsmannasveit og á, að öðrum ólöstuðum, heiðurinn af því hvernig öll stemming hefur aukist í kringum leikina, ekki bara á áhorfendapöllunum heldur líka í aðdraganda leikjanna.

Undirritaður varð vitni að því í Plzen í Tékklandi að mörg hundruð Íslendingar komu saman nokkru fyrir leik og héldu uppi ógleymanlegri stund í jákvæðu umhverfi þar sem saman kom fólk á öllum aldri með það að markmiði að skemmta hvert öðru og sýna landsliði Íslands stuðning í verki.  Það er óhætt að segja að vel hafi til tekist.  Ég fullyrði að allir sem þarna voru munu seint gleyma þeim klukkutímum fyrir leik þegar Tólfan hélt uppi stemmningu með söng og hvatningarhrópum og hvar sem borið var niður voru stuðningsmenn Íslands til sóma.  Gleðin og bjartsýnin skein af hverjum þeim sem þarna var og engin vandamál komu upp þrátt fyrir mikinn fjölda fólks.  Það er ekki sjálfgefið að mörg hundruð Íslendingar leggi land undir fót til þess að hvetja landslið okkar á erlendri grundu, sama hvaða íþrótt á í hlut, og það er virkilega þakkarvert að sjá þann stuðning og það andrúmsloft sem allt þetta fólk skapar með jákvæðu viðhorfi og gleði.  Tékknesk yfirvöld töldu fyrirfram að ástæða væri til þess að fylgjast sérstaklega með þeim 700 Íslendingum sem fylgdu liðinu til Tékklands og gera sérstakar öryggisráðstafanir, eðlilega þar sem oft á tíðum hafa stuðningsmenn gestaliða verið til vandræða þar í landi en fljótlega varð öllum ljóst að þessir stuðningsmenn komu ekki alla þessa leið til þess að skapa vandræði, þeir komu fyrst og fremst til að sýna löndum sínum á vellinum stuðning og skemmta sér og öðrum.  Tvær ferðaskrifstofur, Ferðaskrifstofan Vita og Gaman ferðir skipulögðu ferðir í beinu flugi til Prag og gerðu það með miklum sóma.  Ég held að óhætt sé að fullyrða að allt hafi gengið að óskum og skipulagning hafi verið til fyrirmyndar.  Þegar svo vel tekst til er væntanlega mikil eftirvænting eftir næstu viðburðum og ég vona svo sannarlega að framhald verði á.

Tólfufólk, þið  voruð ykkur og öllum öðrum til sóma í Tékklandi og toppuðuð algerlega fyrri frammistöðu með því að halda uppi stuði og stemmningu í marga klukkutíma fyrir leik.  Það er ógleymanlegt og ómetanlegt fyrir landsliðið okkar og ég veit að strákarnir í liðinu og allir sem að því koma meta mikils þann mikla stuðning sem þið, ásamt fjölmörgum öðrum stuðningsmönnum sem þarna voru, sýnduð í verki.  Hafið bestu þakkir fyrir og vonandi getum við áfram unnið að því í sameiningu að halda úti stórskemmtilegu stuðningsmannaliði sem vekur sífellt meiri athygli.  Það er mikilvægt að við höldum áfram á sömu braut, með sama viðhorfi og hingað til, skemmtum okkur og öðrum.

Ég óska jafnframt Íslendingum til hamingju með þann stóra hóp stuðningsmanna sem styður við bakið á landsliðum okkar með jákvæðum hætti, eru hressir og skemmtilegir og vekja athygli hvar sem þeir koma, eru Íslandi til sóma.  Stuðningsmenn, bestu þakkir fyrir ómetanlegan stuðning í Tékklandi og á öllum öðrum leikjum!  Áfram Ísland!

Þórir Hákonarson
framkvæmdastjóri KSÍ