Velkomin til leiks
Íslandsmótið í knattspyrnu fer fram í 103. skipti í sumar. Langur vetur er að baki sem hefur leikið marga knattspyrnuvelli illa og mun það setja svip sinn á byrjun mótsins. Engu að síður er allt gert til þess að skapa sem bestar aðstæður þrátt fyrir að sumir leikir verði að fara fram á varavöllum í upphafi móts.
Næstu 5 mánuði fara fram mörg þúsund leikir í flestum ef ekki öllum sveitarfélögum landsins á vegum KSÍ þar sem um 20 þúsund iðkendur reyna með sér í Íslandsmóti og bikarkeppni KSÍ. Slíkt krefst skipulags og undirbúnings sem staðið hefur í allan vetur. Þetta er grunnurinn í starfsemi KSÍ og besti vitnisburðurinn um öflugt uppbyggingarstarf aðildarfélaga KSÍ.
Ávallt er leikið til sigurs og meistarar eru krýndir að hausti. En það er líka góður árangur að ná góðum tökum á íþróttinni, bæta sig og hafa ávallt rétt við í keppni. Framkoma leikmanna og þjálfara er líka mælikvarði á okkar starf. Það er mikilvægt að knattspyrnuhreyfingin vinni af alefli gegn einelti innan sinna raða og hvers kyns fordómum. Í sumar mælist KSÍ til þess að fyrirliðar liða mætist á miðjum velli að leik loknum og takast í hendur til marks um að allir skilji sem vinir og jafningjar.
Áfram bera efstu deildir karla og kvenna nafn Pepsi. Bikarkeppnin KSÍ ber nafn Borgunar þriðja árið í röð. Samstarfið við Ölgerðina og Borgun hefur verið einkar gott og farsælt fyrir alla aðila.
Ég býð leikmenn, þjálfara og aðra starfsmenn keppnisliða, dómara, stuðningsmenn liða og fulltrúa fjölmiðla velkomna til leiks. Þakkir eiga skildar allur hinn mikli fjöldi sjálfboðaliða sem leggur mikið af mörkum til þess að halda knattspyrnustarfinu gangandi og annast m.a. framkvæmd leikja. Ég vil nota tækifærið í upphafi tímabils og þakka forystumönnum íslenskra knattspyrnufélaga mikið og óeigingjarnt starf.
Vonandi fjölmenna áhorfendur á vellina í sumar til að njóta góðrar knattspyrnu í fjölskylduvænni stemmingu. Velkomin til leiks og góða skemmtun.
Með knattspyrnukveðju,
Geir Þorsteinsson,
formaður KSÍ.