• 13.05.2014 00:00
  • Pistlar

Kveðja frá KSÍ

Helgi Daníelsson
Helgi-Dan

Helgi Daníelsson kom ungur fram í sviðsljós knattspyrnunnar á Akranesi. Hann lék með ÍA í Íslandsmótinu 1950, en aðeins 17 ára gekk hann til liðs við Val, eftir að hann hóf prentnám í Reykjavík 1950. Helgi lék með Val 1951-1955 en sneri aftur á Skagann 1956.  Helgi, sem var ávallt léttur í lund, sýndi fljótlega að hann var einn snjallasti markvörður landsins og klæddist hann landsliðspeysu KSÍ í fyrsta skipti 20 ára í leik gegn Austurríki á Melavellinum 1953, 3:4. Hann átti síðan eftir að leika 25 landsleiki á árunum 1953-1965, 5 sem leikmaður Vals og 20 sem leikmaður ÍA. Hann varð annar knattspyrnumaðurinn til að leika 25 landsleiki og tryggja sér Gullúr KSÍ, á eftir Ríkharði Jónssyni, félaga sínum frá Akranesi.

Á knattspyrnusviðinu var Helgi í essinu sínu þegar flestir áhorfendur voru að fylgjast með og lék hann við hvurn sinn fingur og söng. Helgi var maður augnabliksins - sannkallaður "Wembley-leikmaður" sem kunni best við sig þegar uppselt var! Hans stærsta stund á sviðinu í landsliðsbúningi Íslands var án efa er hann lék Ólympíuleik fyrir framan 27.000 áhorfendur á Idrætsparken í Kaupmannahöfn 1959, þar sem Friðrik Danakonungur IX var meðal áhorfenda. Helgi fór á kostum í markinu og var hrósað í hástert af meðspilurum, mótherjum, blaðamönnum og dómara, sem hafði aldrei séð eins glæsilega markvörslu. Danir máttu hrósa happi að ná jafntefli, 1:1.

Fljótlega eftir að Helgi lagði "hanskana" á hilluna fékk KSÍ að njóta öflugra krafta hans og léttleika. 36 ára var Helgi kjörin í forystusveit KSÍ á 24. ársþingi sambandsins, sem átti að fara fram í lok árs 1969, en var frestað vegna Bermúdaferðar landsliðsins og fór fram um miðjan janúar 1970. Helgi átti sæti í stjórn KSÍ þar til á 39. ársþingi sambandsins 2. desember 1994, er hann lét af störfum.

Helgi átti mestan heiðurinn að því að KSÍ gaf út glæsilega Handbók fyrir keppnistímabilið 1971, þar sem hægt var að finna upplýsingar um allt í íslenskri knattspyrnu - bók sem efldist með ári hverju. Var "netið" á sínum tíma - upplýsingar um leiki frá upphafi, mótabók allra flokka það sumar, upplýsingar um félög, dómara og leikreglur. Já, og símaskrá knattspyrnunnar! Sannkölluð biblía knattspyrnunnar á Íslandi.

Helgi var varaformaður KSÍ 1975-1977, tók við starfi Jóns Magnússonar. Hann var formaður mótanefndar 1974 og 1975, formaður öflugrar unglinganefndar 1976-1978, formaður landsliðsnefndar 1979-1983, er hann bætti við í safn sitt 37 landsleikjum, sem landsliðsþjálfararnir Júrí Ilitchev, Guðni Kjartansson og Jóhannes Atlason stjórnuðu. Helgi var formaður aganefndar 1984.

Helgi var svo sannarlega vinur knattspyrnunnar - var alltaf tilbúinn þegar leitað var eftir kröftum hans og lagði sig fram við að gera sitt besta.

Knattspyrnuhreyfingin þakkar Helga Daníelssyni fyrir samveruna og ómetanleg störf við að efla knattspyrnuna á allan hátt og sendir fjölskyldu og ættingjum hans innilegar samúðarkveðjur.

Geir Þorsteinsson,

formaður KSÍ.