• 28.04.2014 00:00
  • Pistlar

Kveðja frá KSÍ

Hannes-Th.-Sigurdsson

Við fráfall Hannesar Þ. Sigurðssonar sér knattspyrnuhreyfingin á Íslandi á bak góðum félaga. Hannes var sæmdur æðsta heiðursmerki knattspyrnusambands Íslands, heiðurskrossinum, árið 2007, fyrir vel unnin störf sem dómari, fræðimaður og eftirlitsmaður. Hannes var skoðunarmaður reikninga hjá sambandinu í 60 ár, en lét af þeim störfum 2013 og var heiðraður fyrir vel unnin störf á ársþingi KSÍ 2013. Hannes gætti vel að rekstri KSÍ og vildi festu og aga í fjármálum sambandsins.

Hannes æfði og lék knattspyrnu og handknattleik með Fram á yngri árum, en snéri sér alfarið að félagsmálum eftir að hann kom úr framhaldsnámi í Verslunarskólanum í Stokkhólmi 1950.

Hannes tók dómarapróf í knattspyrnu í mars 1948, varð landsdómari 1951 og var í fremstu röð sem dómari til ársins 1977. Hannes hlaut milliríkjadómararéttindi 1961 og dæmdi sinn fyrsta landsleik 14. ágúst 1963 - viðureign Svíþjóðar og Finnlands í Stokkhólmi, 0:0. Hannes var einnig fremsti handknattleiksdómari landsins og milliríkjadómari.  Hann er annar Íslendingurinn sem dæmir knattspyrnulandsleik erlendis — Haukur Óskarsson hafði dæmt leik tveimur mánuðum áður í Bergen, Noregur - Skotland 4:3. Hannes varð fyrstur Íslendinga til að vinna sér rétt til að bera barmmerki FIFA á búningi sínum, þann rétt öðlaðist hann í apríl 1967, eftir að hafa dæmt Evrópuleik Austur-Þýskalands og Hollands í Leipzig, 4:3.

Hannes varð einnig fyrstur Íslendinga til að dæma kappleik i Evrópukeppninni — 1965 dæmdi leik Celtic og Go Ahead frá Hollandi á Parkhead í Glasgow í Evrópukeppni bikarhafa, 1:0.  Þá varð Hannes fyrstur Íslendinga til að sækja dómaranámskeið á vegum FIFA - í Flórens á Ítalíu árið 1961. Síðan sótti hann fjölmargar ráðstefnur og námskeið á vegum FIFA, UEFA og Norðurlandasambandanna.  Hannes var frumkvöðull á Íslandi í dómaramálum - bæði í knattspyrnu og handknattleik. Hann var frá 1953 aðalkennari Knattspyrnuráðs Reykjavikur í knattspyrnulögunum og síðar Knattspyrnusambands Íslands.

Hannes var eftirlitsmaður KSÍ fram á síðasta dag og var í því hlutverki tíður gestur á knattspyrnuvöllum landsins eftir að hann lét af dómgæslu. Það var reisn yfir Hannesi og hann var ávallt góður fulltrúi KSÍ á vettvangi leiksins.

Knattspyrnuhreyfingin sendir fjölskyldu og ættingjum Hannesar Þ. Sigurðssonar innilegar samúðarkveðjur um leið og hún kveður félaga sem átti svo stóran þátt í eflingu íslenskrar knattspyrnu.