• 17.09.2013 00:00
  • Pistlar

Futsal 2014

Rúnar Arnarson
KSI_2009_Alm-022

Nú í lok ágúst tók Víkingur Ólafsvík þátt í Evrópukeppni félagsliða í Futsal (innanhúsfótbolta) en þeir tryggðu sér þar þátttökurétt sem ríkjandi Íslandsmeistarar.  Stórhuga, eins og Ólafsvíkingum sæmir, þá sóttu þeir um að halda riðil á heimavelli sem þeir og fengu.  Þrjú félög skipuðu riðilinn, ásamt heimamönnum, Anzhi Tallin frá Eistlandi og Athina´90 frá Grikklandi og var leikið í íþróttahúsi Snæfellsbæjar á Ólafsvík.  Er þetta í annað sinn sem riðill í Futsal Cup er spilaður á Íslandi en Keflavíkingar riðu á vaðið árið 2010.

Er skemmst frá því að segja að mótahald þetta var Ólafsvíkingum til mikils sóma og hafi þeir góðar þakkir fyrir.  Spilað var fyrir fullu íþróttahúsi á báðum leikjum Víkings og góð aðsókn var á leik aðkomuliðanna.  Var mikil stemning meðal áhorfenda sem létu vel í sér heyra og hvöttu sína menn til dáða.  Allur undirbúningur og skipulag var til fyrirmyndar og voru gestirnir mjög ánægðir með aðbúnaðinn.  Gefin var út vegleg mótskrá og mótið auglýst vel á Ólafsvík og Snæfellsnesi öllu.  Var greinilegt að áhugi var mikill og mæting eftir því.  Víkingar lögðu Anzhi Tallin í fyrsta leik en þurftu svo að lúta í lægra haldi gegn gríska liðinu, Athina ´90 sem endaði í efsta sæti riðilsins.

Það er eftirtektavert að Víkingur Ólafsvík hefur spilað til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn þrjú ár í röð og tryggðu sér titilinn í fyrsta skiptið í byrjun þessa árs.  Frá upphafi hafa þeir sýnt þessari skemmtilegu tegund fótbolta, mikinn áhuga og lagt metnað í að standa sig sem best í öllum flokkum, karla og kvenna.

Nú þegar hausta tekur og Íslandsmótum utanhúss líkur er vert að huga að þátttöku í Futsal í vetur. Öll þau lið um allt land sem æfa eða hafa aðgang að íþróttahúsum ættu að íhuga þátttöku í Íslandsmótinu 2014 í öllum flokkum karla og kvenna.  Þetta er sérstaklega hentug íþrótt fyrir minni félög með fáa iðkendur, ekki síst fyrir yngri iðkendur.  Margir af bestu knattspyrnumönnum heims hafa sína grunntækni úr Futsal og boltinn sem notaður er, hentar einkar vel til að láta yngstu iðkendur fá betri tilfinningu fyrir boltanum.  Eins og sjá má af árangri Víkings Ólafsvík er hægt að gera skemmtilega og góða hluti ef áhugi, kraftur og metnaður er til staðar.

Rúnar Arnarson