• 22.07.2013 00:00
  • Pistlar

Skrefinu lengra

Þórir Hákonarson
Torir_Hakonarson_2007
A landslið kvenna hefur nú lokið keppni í úrslitakeppni EM í Svíþjóð en liðið náði þar þeim merka áfanga að leika í úrslitum 8 bestu liða Evrópu.  Fyrir mót voru væntingar hóflegar en þó hafði liðið sjálft sett sér ákveðin markmið sem náðust, þ.e. að ná lengra í keppninni nú heldur en í Finnlandi fyrir fjórum árum.  Strax í fyrsta leik náðist í raun sá árangur að stíga skrefinu lengra en á EM í Finnlandi þar sem liðið gerði jafntefli við Noreg og náði þar með í sitt fyrsta stig í lokakeppni EM en stúlkurnar létu ekki þar við sitja heldur unnu góðan sigur á Hollandi sem tryggði þeim sæti í 8 liða úrslitum.

Þjálfarateymi liðsins, starfsmenn og leikmennirnir settu sér það eina og raunhæfa markmið að gera betur en áður, stíga skrefinu lengra en áður hefur verið stigið og það tókst með miklum ágætum.  Það er skynsamlegt að setja slík markmið og er afar dýrmætt fyrir framgang knattspyrnunnar á Íslandi að geta markað ný spor og færa okkur áfram í hverju verkefni sem landslið okkar taka þátt í.  42 lið tóku þátt í undankeppni EM að þessu sinni ef með eru talin þau lið sem léku í forkeppninni og það er mikið afrek við lok keppninnar að Ísland sé í hópi 8 bestu þjóða Evrópu, í félagsskap með Frakklandi, Þýskalandi, Ítalíu, Spáni, Svíþjóð, Noregi og Danmörku.  Í þessum árangri felst mikilvæg viðurkenning á starfi íslenskra félagsliða á öllum sviðum og við getum vissulega borið höfuðið hátt þegar landslið Íslands er í hópi þeirra þjóða sem einna bestum árangri hafa náð þegar kemur að knattspyrnu kvenna í Evrópu.  Öll erum við reynslunni ríkari eftir þessar tvær úrslitakeppnir á síðustu fjórum árum og hún verður seint metin reynslan sem þátttaka í þessum keppnum skilar til ungra leikmanna sem eru þarna að stíga sín fyrstu skref á alþjóðavettvangi undir leiðsögn reynslumeiri leikmanna þar sem fremst fer í flokki Katrín Jónsdóttir, fyrirliði til margra ára og leikjahæsti leikmaður A landsliða Íslands. 

Þátt íslenskra fjölmiðla á mótinu í Svíþjóð er vert að minnast á þar sem þeir sinntu starfi sínu af mikilli fagmennsku og komu góðri umfjöllun til skila til íslendinga og annarra sem fylgdust með mótinu.  Það eykur að sjálfsögðu áhuga og skilning á góðum árangri þegar fjölmiðlar sinna umfjöllun sinni með þessum hætti og þrátt fyrir að þeir séu einungis að sinna skyldum sínum í huga margra þá eru íslenskir fjölmiðlar afar smáir í samanburði við þá fjölmiðla sem fylgdust hvað mest með öðrum liðum á mótinu og hafa oft á tíðum úr litlu að spila þegar kemur að kostnaðarsömu úthaldi erlendis í nokkurn tíma.  Fjölmiðlar stigu skrefinu lengra en í Finnlandi fjórum árum áður líkt og liðið sjálft.

Leikmenn, þjálfara og starfsmenn liðsins eiga að bera höfuðið hátt eftir þennan árangur, gleðjast yfir góðum árangri og jafnframt meta hvað hefði hugsanlega mátt betur fara og nýtist okkur til þess að ná enn lengra á komandi árum.  Nú hefst ný keppni hjá liðinu, undankeppni HM, og verða ný markmið sett sem unnið verður að á næstu tveimur árum.  Með það að aðalmarkmiði að gera enn betur en áður er ekki vafi á því að liðið á eftir að halda áfram að gera íslendinga stolta af árangrinum og veita okkur áfram ánægju af því að fylgjast með framgöngunni.

Fyrir hönd KSÍ og knattspyrnuhreyfingarinnar á Íslandi þakka ég leikmönnum, þjálfarateymi og starfsmönnum öllum fyrir frábærlega vel unnið starf og að gefa okkur tækifæri til þess að gleðjast yfir góðum árangri og ekki síður því að liðið var í allri framkomu sinni á mótinu landi og þjóð til sóma, sannkallaðar fyrirmyndir.  Jafnframt þakka ég fjölmörgum stuðningsmönnum liðsins fyrir frábæran stuðning bæði á vettvangi í Svíþjóð svo og hér heima á Íslandi.   Áfram Ísland!

Þórir Hákonarson, framkvæmdastjóri KSÍ